Sett hefur verið upp yfirlitssíða á íslensku yfir útbreiðslu kórónuveirunnar Covid 19 sem kennd hefur verið við upprunaborgina Wuhan í Kína. Síðan sem er undirvefur dAton sem sinnir vöktun og greiningu upplýsinga og frétta.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá 4. mars síðastliðinn er hægt að sjá yfirlit yfir útbreiðslu veirunnar á síðu sem Johns Hopkins háskólasjúkrahúsið hefur sett upp, en þá höfðu nærri 3.200 manns látist úr sjúkdómnum. Þá voru jafnframt 93.455 staðfest tilfelli sýkingar í heiminum.

Á íslensku síðunni eins og staðan er núna þegar þetta er skrifað þá má sjá að 119.296 eru sýktir, þar af 48.414 virk tilfelli, 4.300 dauðsföll, en 66,582 náð bata í heiminum.

Jafnframt má sjá þar yfirlit yfir ný tilfelli í dag, og þar trónir Suður Kórea á toppnum með 242, en Kína langt á eftir með 30. Hins vegar er Kína með langflest dauðsföll í dag, eða 22, meðan Suður Kórea, Panama og Bandaríkin hver með 1 dauðsfall.

Einnig má sjá dánarhlutfall sýktra, sýkta per 100 þúsund manns, og ýmsar aðrar tölur, auk fréttamiðlunar yfir greinar um veiruna sem og annarra greina. Vefurinn byggir á gögnum frá áðurnefndum Johns Hopkins háskóla auk frétta úr fréttavakt dAton.

dAton er á heimasíðu sinni sagt nýsköpunar- og gagnagreiningarfyrirtæki sem sérhæfir sig í að þróa lausnir og leiðir fyrir fyrirtæki og stofnanir til að nálgast mikið magn upplýsinga sem geri þeim kleift að taka betri ákvarðanir. Helstu þróunarverkefni dAton um þessar mundir eru fjölmiðlavaktari (Vakt) og vaktari fyrir tölulegar upplýsingar (Gagnar).

Covid 19 veirusíða frá dAton
Covid 19 veirusíða frá dAton
© Aðsend mynd (AÐSEND)