Svo virðist sem myntsamstarf með Norðmönnum sé einn þeirra kosta sem nú séu í skoðun í íslenska stjórnkerfinu ef marka má frétt á vef Næringslivsavisen í Noregi. Þar kemur fram að norski þingmaðurinn Gjermund Hagesæter hafi  sent Kristin Halvorsen, fjármálaráðherra Noregs, bréf þar sem hann fer fram á að ráðherrann geri grein fyrir því hvaða afleiðingar það myndi hafa ef íslenska krónan yrði tengd við norsku krónuna.

Hugmyndin rædd á fundi í Brussel

„Þetta er mál sem rætt er á meðal þingmanna á Íslandi. Þannig að það er eðlilegt að við förum yfir málið þannig að við séum undirbúin ef það kemur fyrirspurn frá Íslandi,“ segir Hagesæter en hann ákvað að taka málið upp við norska fjármálaráðherrann eftir fund þingmanna EES/EFTA-ríkjanna í Brussel en þar munu íslensku sendinefndarfulltrúarnir ekki hafa dregið dul á það að myntsamvinna með Norðmönnum væri ein þeirra lausna sem væri í skoðun, segir í frétt Næringslivsavisen .

Gjermund Hagesæter er sjálfur tiltölulega jákvæður gagnvart þeirrri hugmynd að Ísland tengist norsku krónunni. „Ég tel að það geti verið góð lausn fyrir Íslendinga þar sem það getur gefið þeim stöðugri mynt. Jafnframt tel ég að áhrifin [af slíku myntsambandi] myndu verða mjög takmörkuð fyrir Noreg,“ segir norski þingmaðurinn.