Þróunin í evrópskri knattspyrnu er þannig að fjárfestar sjá í auknum mæli tækifæri í að leggja fé í rekstur góðra liða. Þetta er ekki bara að gerast í stóru deildunum í Evrópu eins og Englandi, Spáni, Þýskalandi og Ítalíu heldur einnig á Norðurlöndunum. Sem dæmi þá keypti breska félagið Pathways Group danska úrvalsdeildarliðið FC Nordsjælland núna í desember.

Viðskiptablaðið hefur rætt við þó nokkra sem tengjast íslenskum liðum og eru þeir sammála um að aðeins sé tímaspursmál hvenær erlendir fjárfestar koma hingað til lands í þeim tilgangi að eignast hlut í félagi.  Telja þeir að þetta muni gerast innan fimm ára, jafnvel fyrr.

Einn viðmælandi blaðsins lagði dæmið þannig upp að ef einhver myndi leggja 300 til 500 milljónir í íslenskt lið væri hægt að kaupa nokkra góða leikmenn og þar með auka möguleikana á að komast áfram í Evrópukeppnunum. Ef það tækist myndi þessi fjárfesting strax borga sig og gott betur en það.

Á þessu ári tekur FH þátt í undankeppni Meistaradeildar Evrópu en Breiðablik, KR og Valur taka þátt í undakeppni Evrópudeildarinnar. Ef þessi fjárhæð yrði lögð í rekstur FH og liðið myndi komast í riðlakeppni Meistaradeildarinnar fengi liðið 12 milljónir evra, eða 1.716 milljónir íslenskra króna, frá Knattspyrnusambandi Evrópu (UEFA).

„Tækifærin eru til staðar," segir Geir Þorsteinsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ). „Það er ekkert hægt að horfa fram hjá því. Hér er tólf liða deild og við eigum fjögur lið í Evrópukeppni. Möguleikarnir felast þá fyrst og fremst í því að fá fjármagnið til baka með því að komast í Evrópudeildina eða Meistaradeildina og það er þannig sé ekkert mjög löng leið."

Geir segir að svo lengi sem farið sé eftir reglum verði það ekki litið hornauga þó einhverjir vilji fjárfesta hér.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .