Ef drög að breytingum á mannanafnalögum verða samþykkt getur íslensk nafnahefð horfið á einni eða tveimur kynslóðum. Þetta segir Guðrún Kvaran prófessor og formaður íslenskrar málnefndar. Með breytingunum mun ekki lengur verða skylda að einungis karlmannsnöfn skuli gefin drengjum og kvenmannsnöfn gefin stúlkum né takmarkanir á notkun erlendra nafna. Notkun ættarnafna verður jafnframt gefin frjáls.

Annað fylgir ef eitt svið málsins fellur út

„Í þessum nýjum drögum á vissulega að beygja íslensk nöfn en ekki erlend nöfn,“ segir Guðrún í viðtali á RÚV en hún hefur áhyggjur af því að íslenskir foreldrar gefi börnum erlend nöfn:

„Ef það þarf ekkert að beygja þau, og tíminn líður og þessum nöfnum fjölgar, að þá hef ég áhyggjur af því að það hafi áhrif á íslensku nöfnin. Ef að þarna fellur úr eitt svið, þar sem fólk er algjörlega ruglað í beygingunni, þá spyr ég bara hvernig verður það eftir tvær, þrjár eða fjórar kynslóðir: Færist það þá ekki yfir á önnur svið?“

Hjálpar til við að verða meiri hluti af samfélaginu

Jafnframt segir hún mörg dæmi um að fólk af erlendum uppruna sem flytji hingað til lands vilji laga nöfn sín að íslenskum nafnasið til að verða meiri hluti af samfélaginu.

„Ég held að það sé alltaf mikið tap þegar við missum einhvern ákveðinn þátt úr tungumálinu því ég lít á bæði eiginnöfn og nafnakerfi sem hluta tungumálsins. Ef að þessi venja, að kenna sig til föður eða móður leggst af, eða verður mjög lítil, þá tel ég þetta mikinn skaða fyrir þjóðfélagið.“