Breska fjármálaráðuneytið á nú í viðræðum við íslensk yfirvöld um innistæður breskra viðskiptavina á IceSave-netreikningum Landsbankans. Heildarinnistæður á IceSave nema nú fimm milljörðum punda og fjöldi viðskiptavina er 300.000. Guardian segir frá þessu.

Öllu stærra mál eru björgunaraðgerðirnar sem Gordon Brown hyggst kynna á morgun, en talið er að bresk yfirvöld muni nota 50 milljarða punda í björgunaraðgerðir til handa Royal Bank of Scotland og HBOS. Gengi bréfa í bönkunum hríðlækkaði í dag eftir að fregnir bárust af því að bankarnir hefðu sóst eftir neyðarfyrirgreiðslu hjá Englandsbanka. Útistandandi er yfirtökutilboð Lloyds í HBOS upp á 9 milljarða punda, en markaðsvirði bankans eftir lækkanir dagsins er 4,9 milljarðar.

Gordon Brown, forsætisráðherra, Mervyn King, bankastjóri Englandsbanka og Lord Turner, formaður fjármálaeftirlitsins þar í landi áttu fund um málið í dag.

Talið er að breska ríkið muni þjóðnýta bankana að hluta. Um 50 milljörðum punda verður eytt í kaup á forgangshlutabréfum í bönkunum. Slíkt myndi styrkja eiginfjárstöðu bankanna, auka lausafé þeirra og vonandi auka trúverðugleika fjármálakerfisins þar í landi. Unnið verður að áætluninni í nótt.