"Við vitum að okkur verður mætt af fullri hörku en við erum alveg tilbúnir í það." Þetta segir Ólafur Kjartansson, framkvæmdastjóri Íslenskrar olíumiðlunar í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Íslensk olíumiðlun er nýtt olíufélag sem hyggst hefja sölu á skipagasolíu á Norðfirði í byrjun næsta árs. Íslensk olíumiðlun er að reisa birgðastöð á Norðfirði, 4000 rúmmetra olíutank, en pláss er fyrir fleiri tanka á lóð fyrirtækisins. Íslensk olíumiðlun er í eigu danska olíufélagsins Malik að stærstum hluta en eignarhaldsfélagið Salur heldur utan um hlut Íslendinga í fyrirtækinu.

Malik er ekki ókunnugt íslenskum markaði en LÍU fékk félagið til þess að selja íslenskum útgerðarfélögum olíu árið 2000, en LÍU þótti sem dropinn væri heldur dýr hjá íslensku olíufélögunum. Malik hefur haft áhuga á íslenska markaðnum síðan þá, og slógu þeir til þegar íslenskir aðilar höfðu samband við þá og buðu þeim í samstarf. Malik var stofnað árið 1989 en aðaleigandi þess er Morten Jacobsen, gamalreyndur danskur skipamiðlari. Malik var stofnað til að selja fiskveiðiskipum á Norður-Atlantshafi olíu á hafi úti en í dag býður Malik skipafélögum olíu til sölu í flestum stærstu höfnum heimsins og á úthöfunum. Á heimasíðu félagsins eru starfsmenn fyrirtækisins ekki nema sex talsins og því ljóst að yfirbygging er í lágmarki.

Íslensk olíumiðlun mun bjóða skipagasolíu á lægra verði heldur en íslensku olíufélögin að sögn Ólafs framkvæmdastjóra, en hann á þó von á því að íslenskir útgerðarmenn muni fara sér hægt þegar kemur að því að skipta um birgja. Ríkiskaup hafa þó samið við Íslenska olíumiðlun um að selja Landhelgisgæslunni og Hafrannsóknarstofnun skipagasolíu á svokölluðu Austursvæði, í höfnum við austurströnd Íslands. "Samningurinn er mikil viðurkenning fyrir okkur," segir Ólafur og er bjartsýnn um að félagið fái góðan hljómgrunn meðal íslenskra útgerðarmanna. "Við erum með óflekkað mannorð."