Hyggebikes er nýtt dansk-íslenskt fyrirtæki sem framleiðir rafhjól. Fyrirtækið var stofnað fyrr á þessu ári en að sögn Friðfinns Magnússonar, eins af stofnendum Hyggebikes, fæddist hugmyndin í Danmörku fyrir mörgum árum og stóð undirbúningur fyrir stofnun fyrirtækisins yfir í um þrjú til fjögur ár.

„Hyggebikes snýst, eins og nafnið gefur til kynna, um notalegt andrúmsloft, upplifun og tilfinningu. Við viljum að hjólin okkar geri eigendum sínum kleift að upplifa einmitt þessi notalegheit í hjólaferðum sínum. Markmið okkar er að setja líf og sál í verkefnið og gera okkar allra besta í hráefnisvali og hönnun, ásamt því að hafa þægindin í fyrirrúmi. Við leggjum mikið upp úr að hlusta á viðskiptavini og viljum að þeir séu ánægðir með vöruna og líði vel með hana."

Í rafhjólavörulínu Hyggebikes er að finna fimm mismunandi tegundir af rafhjólum sem flest eru nefnd eftir úthverfum Kaupmannahafnar, eitt eftir hverfi í borginni og loks eitt eftir borginni Árósum. „Tvö af hjólunum heita Virum og Vester. Á æskuárunum bjó ég í Virum, sem er úthverfi við Kaupmannahöfn og því ákvað ég að skíra eitt hjólanna í höfuðið á æskuslóðunum. Danskur meðstofnandi minn var svo alinn upp á Vesterbrogade í Kaupmannahöfn og því fékk eitt hjólið nafnið Vester," segir Friðfinnur.

Eins og fyrr segir hóf fyrirtækið störf á þessu ári en rafhjól þess eru þegar til sölu í gegnum netverslun Hyggebikes. Friðfinnur segir að þau markaðssvæði sem einblínt verði á á fyrsta starfsárinu séu Danmörk, Ísland og Bretland. „Að sama skapi gerum við okkur vonir um að geta opnað útibú á „norrænum slóðum" á Spáni í lok sumars. En það verður bara að koma í ljós hvort tími gefist til þess."

Öll Evrópa undir

Íslendingar geta nálgast Hyggebikes hjólin hér á landi þar sem þau eru komin í sölu í verslun Víkurverks í Víkurhvarfi í Kópavogi. Íris Angela Jóhannesdóttir, innkaupa- og markaðsstjóri Víkurverks, segir starfsfólk verslunarinnar spennt fyrir að kynna rafmagnshjól Hyggebikes fyrir viðskiptavinum. „Rafhjólin eru mjög skemmtileg viðbót við vöruúrvalið okkar." Hún segir einn helsta kost hjólanna felast í því að auðvelt sé að brjóta þau saman, skella í skottið og taka það með í útileguna, sumarbústaðinn eða hvert annað sem förinni er heitið.

Friðfinnur segir Hyggebikes stórhuga fyrir framtíðinni og stefnt sé á að rafhjólið verði til sölu víða um Evrópu innan nokkurra ára. „Við erum alltaf með augun opin fyrir mögulegum dreifingar- og umboðsaðilum um alla Evrópu. Við horfum bjartsýn til framtíðar og vonumst til að sjá rafhjól Hyggebikes á götum sem flestra borga og bæja í Evrópu."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .