Aflaverðmæti íslenskra skipa nam 12,6 milljörðum króna í janúar síðastliðnum og er það 3,6 milljarða króna aukning á milli ára. Hlutfallslega gerir það 40% aukningu á milli ára.

Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar nam aflaverðmæti botnfisks 7,4 milljörðum króna og verðmæti uppsjávarafla um 4,5 milljörðum króna. Verðmæti uppsjávaraflans jókst um 48,7% á milli ára og skýrir það næstum helmingi meira verðmæti loðnuaflanar nú en í fyrra.

Þá bendir Hagstofan á að verðmæti afla sem seldur er í beinni sölu útgerða til vinnslu innanlands nam 8,1 milljarði króna í janúar og jókst um 43,4% á milli ára en verðmæti afla sem keyptur var á markaði til vinnslu innanlands jókst um 24,2% milli ára og var ríflega 1,8 milljarðar í janúar. Þá nam aflaverðmæti sjófrystingar tæpum 2,3 milljörðum í mánuðinum, sem er 24,2% aukning á milli ára á sama tíma og verðmæti afla sem fluttur er út óunninn nam 443 milljónum, sem er 39,4% aukning á milli árra.