BizSpark, nýju átaksverkefni Microsoft sem miðar að því að aðstoða sprotafyrirtæki í hugbúnaðargeiranum við að koma undir sig fótunum, verður formlega hleypt af stokkunum á Íslandi í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Sprotafyrirtæki sem skrá sig í BizSpark fá frían aðgang að fjölbreyttu úrvali Microsoft-hugbúnaðar, þar á meðal öllum helstu þróunartólum Microsoft og í framtíðinni tölvuskýinu Azure, fá stuðning frá samstarfsaðilum Microsoft og aðgang að tengslaneti BizSpark, þar sem finna má mögulega fjárfesta, viðskiptavini og samstarfsaðila um allan heim.

Microsoft svipti hulunni af BizSpark þann 5. nóvember og hefur verkefnið vakið umtalsverða athygli á alþjóðavettvangi.

Upphaflega var aðgangur að verkefninu einungis í boði fyrir fyrirtæki á stærstu markaðssvæðum Microsoft og ekki ljóst hvenær Íslandi yrði bætt í hópinn.

Óformlegar umsóknir frá íslenskum sprotafyrirtækjum hófu engu að síður að streyma inn til Microsoft Íslandi frá fyrsta degi.

Í ljósi erfiðra aðstæðna í atvinnulífi hér á landi og stóraukins áhuga á nýsköpun lagði Microsoft Íslandi því hart að höfuðstöðvum Microsoft að veita flýtimeðferð þannig að hægt yrði að gangsetja BizSpark á Íslandi eins fljótt og kostur væri. Það bar árangur og geta því íslensk sprotafyrirtæki í hugbúnaðargeiranum sótt formlega um aðgang að BizSpark frá og með deginum í dag, segir í fréttatilkynningunni.

Eitt lykilatriðanna við að starfrækja BizSpark er að innlendir samstarfsaðilar Microsoft gangi til liðs við verkefnið. Þeir sjá um að skrá sprotafyrirtæki í BizSpark, aðstoða þau við að nýta sér kosti verkefnisins og veita aðra almenna aðstoð og ráðgjöf við rekstur sprotafyrirtækjanna. Nú þegar hafa verið skráðir tveir BizSpark samstarfsaðilar á Íslandi, fjárfestingarsjóðurinn Frumtak og Samtök upplýsingatæknifyrirtækja –  SUT – fyrir hönd Samtaka iðnaðarins. Fleiri fyrirtæki og stofnanir sem starfa við nýsköpun og aðstoð við sprotafyrirtæki hafa lýst áhuga á að bætast í hóp samstarfsaðila á næstunni.

„Það hefur verið ævintýralegt að taka þátt í að koma þessu verkefni af stað á Íslandi. Viðtökurnar hafa alls staðar verið framar vonum, sem gerir það að verkum að við getum formlega opnað BizSpark á Íslandi einungis örfáum dögum eftir að það var sett af stað á alþjóðamarkaði. Höfuðstöðvar Microsoft hafa sýnt okkur mikinn skilning í ljósi aðstæðna og hraðað öllum sínum ferlum í okkar þágu, þeir sem við leituðum til um að verða samstarfsaðilar hafa allir tekið okkur fagnandi og ekki síst hefur áhugi íslenskra sprotafyrirtækja frá fyrsta degi hvatt okkur til dáða. Ég er stoltur af því að þetta sé orðið að veruleika og sannfærður um að þetta mun á komandi misserum reynast mörgum íslenskum fyrirtækjum lyftistöng í erfiðu árferði,“ segir Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi, í fréttatilkynningunni.

„Samtök iðnaðarins og Samtök upplýsingatæknifyrirtækja eru mjög ánægð með að geta boðið sprotafyrirtækjum sínum aðgang að BizSpark samningnum við Microsoft. Samtökin telja engan vafa á að samningurinn geti skipt miklu máli fyrir fyrirtækin, ekki síst eins og staðan er nú í íslensku atvinnulífi. SI og SUT vilja þakka Microsoft Íslandi fyrir skjót viðbrögð við að gangsetja BizSpark á Íslandi,“ segir Haraldur Dean Nelson, forstöðumaður upplýsingatæknisviðs SI, í fréttatilkynningunni.

„Frumtak fjárfestir í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum og kappkostar að eiga gott samstarf við öll slík fyrirtæki. Þess vegna er þetta framtak Microsoft vel þegið og hjálpar á þessum síðustu og verstu tímum. Miklu skiptir að létta þessum fyrirtækjum róðurinn, sem er mjög erfiður á fyrstu árum þeirra. Við hlökkum til samstarfsins við Microsoft og væntum mikils af því," segir Eggert Claessen, framkvæmdastjóri Frumtaks, í fréttatilkynningunni.

Skilyrði sem fyrirtæki þurfa að uppfylla til að vera gjaldgeng í BizSpark er að þau starfi við hugbúnaðarhönnun af einhverju tagi, séu einkarekin, hafi verið starfrækt skemur en í þrjú ár og velti innan við einni milljón bandaríkjadala (u.þ.b. 130 milljónum króna) á ári.