Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Íslensk stjórnvöld vara við hugsanlegri áhættu tengdri kaupum, varðveislu á eða viðskiptum með sýndarfé eins og Auroracoin. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Seðlabankanum, fjármálaráðuneytinu, Fjármálaeftirlitinu og fleiri aðila. Í tilkynningunni segir að sýndarfé megi lýsa sem tilbúnum stafrænum skiptimiðli. Slíkt sýndarfé hafi víða rutt sér til rúms en notkun og viðskipti með það hafi hingað til verið afar takmörkuð hér á landi.

„Gildandi lög á Íslandi vernda neytendur ekki gegn tapi á sýndarfé, t.d. ef „markaðstorg“ sem skiptir eða varðveitir sýndarfé bregst skyldum sínum eða ef greiðsla misferst eða kemst í hendur óviðkomandi aðila. Handhafi sýndarfjár á ekki kröfu á útgefanda sambærilega því sem við á um peningaseðla og mynt, rafeyri, innlán og annars konar inneign á greiðslureikningi í skilningi laga nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu. Verðgildi  og óhindrað aðgengi að sýndarfé er alls ótryggt frá einum tíma til annars,“ segir í tilkynningunni.