Félag Atvinnurekenda áformar að stofna Íslensk-tælenskt viðskiptaráð þann 6. september næstkomandi í framhald málþings sem félagið heldur í samstarfi við sendiráð Tælands í Kaupmannahöfn og aðalræðismann Tælands á Íslandi.

Vimon Kidchob, sendiherra Taílands í Kaupmannahöfn, sem jafnframt fer með fyrirsvar gagnvart Íslandi, og Anna M.Þ. Ólafsdóttir aðalræðismaður áttu á dögunum fund með FA þar sem drög voru lögð að dagskrá málþingsins. Félagið rekur þegar viðskiptaráð Íslands og tveggja stærri landa í Asíu, Indlands og Kína, en nú er stefnt á að Tæland bætist í hópinn.

Von á hátt settri sendinefnd

„Tilgangurinn með þessum ráðum er að stuðla að og efla viðskipti milli landanna og koma á viðskiptasamböndum, treysta þau og ekki síst miðla upplýsingum og skiptast á skoðunum,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags Atvinnurekenda.

„Við höfum verið með talsverða starfsemi í viðskiptaráðunum og Tælendingar leituðu til okkar með að halda þetta málþing í haust. Hingað kemur sendinefnd hátt settra tælenskra embættismanna sem margir hverjir starfa á sviði utanríkisviðskipta.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .