Tíu stærstu fyrirtæki landsins sem aðild eiga að Samtöku tölvuleikjafyrirtækja veltu um 0,5% af landsframleiðslu og stand undir 0,3% heildarstarfa í landinu með beinum hætti. Þetta eru sambærilegar tölur og í Bandaríkjunum en þar nam velta tölvuleikjaframleiðenda 0,7% af landsframleiðslu árið 2009. Þá störfuðu tæplega 500 manns hjá fyrirtækjunum sem er hlutfallslega meira en í geiranum í Bandaríkjunum.

Þetta kemur fram í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka.

Þar kemur sömuleiðis fram að velta fyrirtækjanna hér hafi numið átta milljörðum króna, jafnvirði 50 milljónum evra, í fyrra.

Greiningardeildin segir tölvuleikjaframleiðendur hafa lítið gert annað en að vaxa þrátt fyrir högg á heimsbúskapinn.

„Þótt hægt hafi á vexti geirans eftir árið 2008 er engu að síður gert ráð fyrir að hann muni áfram vaxa mun hraðar en heimsbúskapurinn í heild næstu árin. Í Global entertainment and meda outlook frá PriceWaterhouseCoopers er um 7,2% árlegum vexti spáð til ársins 2016, þegar verðmæti iðnaðarins verður orðið USD 83 milljarðar. Tölvuleikir verða þar með vaxtarbroddurinn í skemmtanaiðnaðinum í nánustu framtíð,“ segir í Markaðspunktunum.