Jólagjöfin í ár er íslensk tónlist, samkvæmt vali fimm manna dómnefndar á vegum Rannsóknarseturs verslunarinnar á Bifröst. Fram kemur í riti setursins, Jólaverslun 2012 og jólagjöfin í ár, að þegar leitað hafi verið eftir hugmyndum að jólagjöfum fyrir þessi jól hafi komið fram ítrekaðar óskir um að fá „þrettánda mánuðinn“. Þetta er jólauppbótin sem algengt var að fyrirtæki greiddu starfsmönnum sínum þegar allt lék í lyndi í efnahagslífinu og smjör draup af hverju strái. Rannsóknasetrið segir hins vegar, að þó ekki sé að vænta þrettánda mánaðarins eða mikils jólabónuss frá vinnuveitendum fyrir þessi jól sé gert ráð fyrir því að jólaverslun aukist nú um 7% frá síðasta ári.

Í ritinu kemur fram að gert sé ráð fyrir því að hver landsmaður verji að jafnaði rúmlega 43 þúsund krónum til kaupa á jólagjöfum og horfi hann frekar til gæða en magns. Útlitið er jákvætt fyrir verslun sem selur raftæki, tölvu- og farsímabúnað, afþreyingu og menningartengda þjónustu.

Rannsóknarsetur verslunarinnar