Þótt plötusala hafi farið dalandi á síðustu árum í krafti netvæðingar hefur hún enn náð að halda sínu striki á meðal nokkurra verslana á Íslandi. Í síðustu viku tók Viðskiptablaðið saman upplýsingar um vöxt ferðaþjónustunnar en þar kom fram að kortavelta erlendra ferðamanna á Íslandi á fyrstu átta mánuðum þessa árs hefði aukist um 25% frá því á sama tíma í fyrra.

Ekki eru til heildartölur um hversu miklu erlendir ferðamenn eyða í íslenska tónlist hér á landi en til samanburðar þá nam erlend kortavelta til tónleika, leikhúsa, kvikmyndasýninga og annarra viðburða rúmum 125 milljónum króna á fyrstu sjö mánuðum þessa árs. Er það tæp 50% aukning frá því á sama tíma í fyrra og því líklegt að aðdráttarafl íslenskrar tónlistar sé töluvert fyrir erlenda gesti.

Að sögn Ingvars Geirssonar, eiganda plötubúðarinnar Lucky Records við Rauðarárstíg, gengur vel að selja erlendum ferðamönnum íslenska tónlist. „Það var einn að labba út með sjö diska rétt áðan,“ sagði hann í samtali við Viðskiptablaðið undir lok sumars. Ingvar telur að sala á íslenskri tónlist til ferðamanna nemi um 30 prósent af heildarsölu Lucky Records.Undir þetta tekur Lárus Jóhannesson, annar eigenda plötubúðarinnar 12 Tóna, sem segir sölu á íslenskri tónlist til erlendra ferðamanna vera verulega mikilvægan hluta af rekstri búðarinnar.

Kristján Kristjánsson, verslunarstjóri Smekkleysu, tekur einnig undir þetta en bendir á að sala á erlendu efni til þeirra hafi einnig verið mjög góð. Hann áætlar að af þeim plötum sem seljast til erlendra ferðamanna séu 70 prósent þeirra íslenskar og að erlendir ferðamenn séu helmingur heildarfjölda viðskiptavina yfir sumarmánuðina. Samkvæmt þessu má því áætla að sala á íslenskri tónlist til erlendra ferðamanna nemi 35 prósentum af heildarsölu Smekkleysu á sumrin.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .