Íslensk verðbréf munu taka yfir skuldabréfasjóð Byrs sparisjóðs samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Er það liður í endurskipulagningu sparisjóðsins sem miðar að því að hagræða í rekstri og leggja niður eða selja starfsemi sem ekki snýr beint að hefðbundinni bankaþjónustu.

Skuldabréfasjóðurinn hefur fjárfest eingöngu í  ríkistryggðum verðbréfum eins og ríkisbréfum, íbúðarbréfum, húsbréfum og ríkisvíxlum. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Byrs leitast sjóðurinn við að fjárfesta í þeim ríkistryggðu skuldabréfum sem gefa hæsta ávöxtun hverju sinni. Sýndi sjóðurinn bestu ávöxtun sambærilegra sjóða í fyrra samkvæmt vefsíðunni sjodir.is

Fréttablaðið greindi frá því á forsíðu í dag að mikil uppstokkun standi nú yfir innan Byrs með sameiningu útibúa, niðurlagningu deilda og flutningi á starfsfólki í starfi. Það sé gert í samvinnu við stjórnvöld, Seðlabanka og Fjármálaeftirlit.  Að hagræðingaraðgerðum loknum muni ríkið væntanlega leggja honum til nýtt eigið fé upp á tæpa ellefu milljarða króna.

Átta af tólf sparisjóðum á landsvísu hafa óskað eftir viðbótar eiginfjárframlagi frá íslenska ríkinu til að geta uppfyllt lágmarksskilyrði um átta prósent eiginfjárhlutfall. Það geta þeir gert á grundvelli neyðarlaganna sem voru sett í fyrrahaust. Eiginfjárframlag ríkisins miðast við 20 prósent af eiginfjárstöðu sjóðanna í árslok 2007.