Íslensk verðbréf hyggjast opna starfsstöð í Reykjavík innan skamms en félagið er með höfuðstöðvar á Akureyri. Að sögn Sævars Helgasonar, framkvæmdastjóra ÍV, er ætlunin að koma þar fyrir nokkrum starfsmönnum sem munu tilheyra eignastýringarsviði félagsins.

Sævar sagði að þetta hefði verið lengi í skoðun hjá félaginu og búið væri að ráða einn starfsmann en gert er ráð fyrir að þeir verði fjórir fljótlega með haustinu. ,,Þessir starfsmenn munu tilheyra eignastýringarsviðinu og heyra undir forstöðumann þess sviðs hjá félaginu," sagði Sævar.

Hann sagði að það hefði verið mikil aukning í viðskiptum hjá þeim, m.a. vegna yfirtöku á þjónustu við fyrrum viðskiptavini SPRON verðbréfa og Rekstrarfélags SPRON og fleiri breytinga á fjármálamarkaði. Einnig væri gott fyrir starfsmenn félagsins á Akureyri að hafa aðstöðu í Reykjavík því þeir eru mikið á ferðinni á milli og verður því þægilegra að funda með viðskiptamönnum félagsins á Reykjavíkursvæðinu.