Íslensk verðbréf (ÍV) og eignastýringarfyrirtækið Standard Life Investments (SLI) hafa útvíkkað áralangt samstarf sitt um sölu og dreifingu á erlendum sjóðum sem reknir eru af félaginu. Íslensk verðbréf geta nú boðið viðskiptavinum sínum að fjárfesta í enn fjölbreyttara úrvali hlutabréfa-, skuldabréfa-, framtaks- og vogunarsjóða í rekstri Standard Life Investments.

Standard Life Investments er eignastýringarfyrirtæki sem rekur sögu sína allt aftur til ársins 1825 er móðurfélag þess var stofnað í Edinborg. Félagið er með yfir 300 milljarða Bandaríkjadollara af eignum í stýringu og 1.700 starfsmenn á 17 starfsstöðvum víðsvegar um heiminn. Í byrjun mars tilkynnti Standard Life Plc um fyrirhugaðan samruna félagsins við eignastýringarfyrirtækið Aberdeen Asset Management, en með sameiningu verður félagið eitt stærsta eignastýringarfyrirtæki Bretlands.

ÍV voru stofnuð árið 1987 og fagna því 30 ára afmæli á þessu ári. Hlutverk félagsins er að aðstoða fagfjárfesta, stéttarfélög, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklinga við að ná hámarksávöxtun á fé sitt að teknu tilliti til áhættu.  Það gerir félagið með ráðgjöf, miðlun, eignastýringu, sérhæfðum fjárfestingum og vönduðu framboði sjóða. Félagið var í lok árs 2016 með tæpa 129 milljarða kr. í virkri stýringu fyrir viðskiptavini sína.

Erlendar fjárfestingar munu aukast

Sigþór Jónsson framkvæmdastjóri ÍV segir í samtali við Viðskiptablaðið að samstarfið við SLI veiti viðskiptavinum aukna valkosti við áhættudreifingu eignasafna sinna.

„Með afnámi fjármagnshafta er gríðarlega gott að eiga góðan samstarfsaðila á borð við SLI. Með samstarfi okkar við SLI getum við boðið viðskiptavinum okkar aðgang að fjölbreyttu úrvali sjóða í stýringu hjá þeim. Um er að ræða sjóði sem ná yfir alla helstu eignaflokka og landsvæði og byggja á margskonar aðferðafræði, en sjóðaframboð SLI er víðfemt.“

Sigþór segir að með afnámi fjármagnshafta fari innlendir fjárfestar að huga að því að byggja upp erlend eignasöfn sín á nýjan leik. Þó muni taka tíma fyrir aðila á borð við lífeyrissjóði að hækka hlutfall erlendra eigna í eignasöfnum sínum.

„Við höfum áhuga á því að aðstoða fjárfesta í því ferli og þetta samstarf er liður í því. Fjölbreytileiki fjárfestingarkosta á Íslandi er lítil.  Mikilvægt er að fjárfestir hafi val til að fjárfesta jafnframt í erlendum eignum, en með því fæst nauðsynleg áhættudreifing á eignasafn fjárfesta. Svo er mikilvægt fyrir fagfjárfesta á borð við lífeyrissjóði að huga að fjölþættingu eignasafna sinna. Þeir hafa verið mest áberandi í fjárfestingum á Íslandi undanfarin ár og líklega fjárfest fyrir meira en 100 milljarða í íslensku atvinnulífi, beint og í gegnum sjóði, frá árinu 2009. Með erlendri fjárfestingu s.s. í hlutdeildarskírteinum erlendra verðbréfa- og fjárfestingarsjóða næst fram hagstæðari eignasamsetning m.v. áhættu.

Einhverjir lífeyrissjóðir munu auka hlutfall erlendra fjárfestinga í eignasöfnum yfir 10-15% á næstu árum, þó stærstur hluti eignasafnsins muni líklega vera áfram fjárfestur á Íslandi. Sú breyting mun hins vegar taka tíma – sem dæmi má nefna að það tók um áratug að hækka hlutfallið úr um 10% í tæplega 30% á árunum fyrir bankahrun.

Almennt breytir afnám hafta miklu, en við teljum að breytingarnar verði yfir lengra tímabil frekar en styttra. Við erum því núna í upphafi vegferðar sem mun líklega taka nokkur ár, enda væri áhættusamara að ætla að framkvæma slíka yfirfærslu á skömmum tíma – m.t.t. aðstæðna á fjármála- og gjaldeyrismarkaði. Einstaklingar eru almennt ekki að fjárfesta mikið í skráðum verðbréfum eða sjóðu mog er það miður, en við sjáum fram á að sparnaður einstaklinga og fyrirtækja muni í ríkari mæli færa sig til annarra landa á næstu misserum.“

Alltaf hægt að gera betur en markaðurinn

Spurður út í ávinninginn af erlendri fjárfestingu um þessar mundir, þegar vextir ytra eru lágir og verðþensla víða, segir Sigþór að aðstæður erlendis séu ekki einsleitar, þó víða kunni að vera blikur á lofti.

„Erlendar fjárfestingar munu taka mið af aðstæðum hverju sinni. Sjóðaframboð SLI er fjölbreytt og aðstæður erlendis eru hvergi nærri einsleitar. Þó blikur kunni að vera á lofti í ákveðnum eignaflokkum og landsvæðum á einhverjum tíma, þá er ávallt hægt að finna tækifæri í öðrum eignaflokkum eða landsvæðum eða í kostum sem byggja á annarri aðferðafræði,“ segir Sigþór.