Það er frekar langsótt að kenna verslunarferðum til útlanda um minni jólasölu, segir Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson, kaupmaður i Sports Direct, í grein sem hann ritar í Fréttablaðið . Með greininni bregst hann við ummælum Andrésar Magnússonar, framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu, sem hann segir hafa borið sig aumlega í sjónvarpsfréttum RÚV á mánudagskvöld þegar hann ræddi dræma jólasölu á fatnaði

„Íslendingar hafa alltaf verið öflugir í verslunarferðum og ekki kvörtuðu kaupmenn fyrir hrun, þegar dollarinn var á 60 krónur. Vissulega eru vörugjöld og virðisaukaskattur há á Íslandi, en öll verslun býr við sama veruleika, sama hvort varan er keypt í Lindum eða á Amazon.com,“ segir Sigurður Pálmi. Lækkun á vörugjöldum og tollum myndi því ekkert nýtast íslenskum kaupmönnum umfram erlenda netkaupmenn.

„Það liggur fyrir að íslensk verslun er óhagkvæm, hún kaupir inn á háu verði vegna smæðar og fjarlægðar við meginlandið og hefur offjárfest gríðarlega í verslunarhúsnæði. Íslensk verslun notar til dæmis tæplega þrisvar sinnum meira verslunarhúsnæði en breskir kollegar. Og fjármagnið til að borga eitt hæsta leiguverð í Evrópu kemur beint úr vasa neytenda,“ segir Sigurður Pálmi.

Hann segir íslenska verslun vera mjög ósveigjanlega og hafa fá svör til að mæta nýrri samkeppni sem birtist á netinu. En í stað þess að skoða sjálfa sig og leita nýrra leiða til að lækka verð og mæta þessari samkeppni fari talsmenn kaupmanna í fjölmiðla og grátbiðji ríkið um að skera verslanir úr snörunni og „auka samkeppnishæfni þeirra“.