*

miðvikudagur, 26. júní 2019
Innlent 23. nóvember 2016 13:42

Íslensk verslun samkeppnishæf við útlönd

Andrés Magnússon framkvæmdastjóri SVÞ segir afsláttardaga, eins og Svarta fössarann til þess að keppa við erlenda verslun.

Höskuldur Marselíusarson
Haraldur Guðjónsson

Eins og landsmenn hafa tekið eftir hafa íslensk fyrirtæki tekið upp á því að bandarískri fyrirmynd að bjóða sérstaka afslætti á fyrsta degi eftir þakkargjörðarhátíðina þar í landi en í Bandaríkjunum er sá dagur fyrsti dagur hefðbundinnar jólaverslunar í landinu.

„Það er greinilegt að þetta tók kipp í fyrra og er greinilega að festa sig í sessi sem árviss atburður hérna á Íslandi í undirbúningi jólanna,“ segir Andrés Magnússon framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.

„Þetta er ekki algerlega sjálfsprottið, en eins og allir vita er þetta að bandarískri fyrirmynd og svo er þetta farið að breiðast út til Evrópu. Fyrir einungis þremur eða fjórum árum var þetta algerlega óþekkt fyrirbrigði hér á landi, en fyrir tveimur árum byrjaði þetta aðeins og tók svo algert stökk í fyrra og er núna búið að festa sig í sessi.“

Veltan tífaldast á einum degi

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um þá hefur Elko þegar byrjað að telja niður fyrir Svarta fössarann eins og þeir kalla daginn upp á hið ástkæra ylhýra þar sem þeir hafa verið að bjóða upp á afslætti á hverjum degi vikunnar.

„Allt þetta er hugsað fyrir neytandann og að þetta komi honum til góða, svo hann geti nýtt tækifærið og gert hagkvæmari innkaup fyrir jólin en ella,“ segir Andrés sem vísar einnig í miðnætursprengjur verslunarmiðstöðvanna, þar sem boðið er upp á afslætti og opið til miðnættis í byrjun nóvembermánaðar.

„Það var svona eins og á Þorláksmessu, leggja þurfti út við Kringlumýrarbraut til að komast í Kringluna sem dæmi. Eftir því sem þeir segja mér þá tífaldast alveg veltan á þessum degi, en þá er mjög veglegur afsláttur yfir alla línuna.“

Tollaniðurfellingin jafnar samkeppnisstöðu við erlenda samkeppni

Andrés segir alla þessa atburði vera lið í því að draga verslunina til sín.

„Það má ekki gleyma því, ekki síst fyrir verslanir í Kringlunni og Smáralindinni, að þær eru í gífurlegri samkeppni við erlenda verslun, bæði netverslun og verslun Íslendinga í útlöndum. Þetta er liður í því að laða Íslendinga til þess að versla frekar hérna heima heldur en í útlöndum,“ segir Andrés en samtök hans hafa lengi barist fyrir niðurfellingu vörugjalda og tolla.

„Okkar markmið er að jafna samkeppnisstöðu verslunarinnar hérna heima, til að gera hana samkeppnishæfari við verslun í útlöndum. Frá og með næstu áramótum þegar allir tollar, nema af hluta matvæla, hafa fallið niður höfum við náð okkar markmiði, en síðan verður samkeppnin að sjá um restina.“

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is