Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu við Háskóla Íslands og prófessor við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild, og fyrrverandi nemandi hans, dr. Alberto Villa, hlutu á dögunum verðlaun fyrir bestu vísindagrein ársins í tímaritinu IEEE Transactions on Geoscience and Remote Sensing. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Háskóla Íslands.

Tímaritið er eitt virtasta vísindarit heims í rafmagnsverkfræði en í því er fjallað um fjarkönnunarrannsóknir.

Í tilkynningunni segir að mikilvægi fjarkönnunarrannsókna felist til dæmis í því þegar mæla þarf ýmsar breytingar sem orðið geta á umhverfinu. Þetta á ekki síst við hér á landi um mælingar á breytingum tengdum bráðnun jökla og á landi í aðdraganda eldgosa. Á sjötta hundrað vísindagreina voru birtar í tímaritinu á árinu 2011 og valdi alþjóðleg dómnefnd greinina frá Háskóla Íslands þá bestu.

Verðlaunin voru afhent 26. júlí sl. á alþjóðlega þinginu 2012 IEEE International Geoscience and Remote Sensing Symposium sem haldið var í München í Þýskalandi.