Viðskiptavinir sparisjóðanna eru ánægðustu viðskiptavinir íslenskra fyrirtækja samkvæmt niðurstöðum mælinga Íslensku ánægjuvogarinnar sem kynnt var í morgun.

Þetta kemur fram í tilkynningu Sparisjóðunum en að Íslensku ánægjuvoginni standa Stjórnvísi, Samtök iðnaðarins og Capacent

Þar kemur fram að vörumerki sparisjóðanna, Sparisjóðurinn, Byr og SPRON raða sér í þrjú efstu sætin í hópi fjármálafyrirtækja og er þetta 10. árið í röð sem sparisjóðirnir hreppa þá viðurkenningu.

Fram kemur að Íslenska ánægjuvogin hefur gert mælingar á ánægju viðskiptavina fjármálafyrirtækja allt frá árinu 1999 eða í áratug. Sparisjóðirnir hafa ævinlega lent ofar bönkunum í þessari mælingu en munurinn ekki verið ýkja mikill á milli þeirra.

„Nú bregður svo við að ánægja með þjónustu sparisjóðanna eykst á milli áranna 2007 og 2008 en ánægja með þjónustu bankanna þriggja fellur verulega í kjölfar hruns þeirra sl. haust,“ segir í tilkynningunni.

„Mér hefur alltaf verið ljóst að fólk kann vel að meta þá góðu og persónulegu þjónustu sem starfsfólk sparisjóðanna veitir. Okkar viðskiptamenn eru ánægðir með að sparisjóðirnir hafa lagt áherslu á að sinna fyrst og fremst einstaklingum og fyrirtækjum á heimamarkaði,“ segir Gísli Jafetsson hjá Sambandi íslenskra sparisjóða í tilkynningunni.

Þá kemur fram að í kjölfar þessarar viðurkenningar munu sparisjóðirnir á Íslandi standa að kynningarátaki næstu vikur þar sem athygli verður vakin á þeim gildum sem sparisjóðirnir standa fyrir og hlutverki sparisjóðanna í íslensku samfélagi.

Yfirskrift átaksins er Áfram fyrir þig og þína og hefur það þann tilgang að vekja almenning og stjórnvöld til vitundar um nauðsyn þess að standa vörð um sparisjóðina og að samkeppnisstaða þeirra veikist ekki í kjölfar þeirra aðgerða sem ríkið ræðst í þegar rekstrargrundvöllur nýju bankanna verður tryggður, eins og það er orðað í tilkynningunni.