Gæði og geta íslenskra banka og bankakerfisins í heild sinni til að bregðast við áföllum er í meðallagi í samanburði við önnur lönd. Þar er íslenska bankakerfið í hópi nýmarkaðsríkja þrátt fyrir að önnur vestræn hagkerfi, sem byggi á gömlum merg, eins og Þýskaland og Austurríki finnist þar líka. Þetta eru niðurstöður nýútkominnar skýrslu alþjóðlega matsfyrirtækisins Fitch og byggir á úttekt á bankakerfi 82 landa. Fitch segir einnig að þrátt fyrir mikla hækkun eignaverðs, mikinn útlánavöxt og gengisstyrkingu hér á landi að undanförnu sé hins vegar ekki sérstök ástæða til að hafa áhyggjur af yfirvofandi bankakreppu á Íslandi.

Þetta er í fyrsta skiptið sem Fitch gefur út slíka skýrslu en í henni er lagt mat á á annars vegar getu bankakerfisins til að standa af sér óæskilega þróun í efnahagslífinu og hins vegar mögulega hættu á bankakreppu. Í samtali Viðskiptablaðsins við Gerry Rawcliffe , annan höfunda skýrslunnar kom fram að þetta er fyrsta skýrsla sinnar tegundar þar sem hægt er að bera saman gæði bankakerfa og hættu á bankakreppu milli landa á föstum skala.

Fréttaskýring er í Viðskiptablaðinu í dag