Það sem hefur verið einkenni útrásar Íslendinga á undanförnum misserum eru fjárfestingar í ferðaþjónustu. Bæði er um að ræða kaup Íslendinga á erlendum ferðaskrifstofum en þó hafa fjárfestingar í erlendum flugfélögum verið umtalsvert umfangsmeiri. Það nýjasta sem gerst hefur á þessum vettvangi eru kaup FL Group á hlut í finnska flugfélaginu Finnair.

Síðustu fréttir af easyJet eru þær að stofnandi félagsins ætlar að gera FL Group erfiðara fyrir með yfirtöku á félaginu. Á móti kunna hins vegar að skapast möguleikar til yfirtöku á Finnair í náinni framtíð.

Umfang flugrekstrar í eigu íslenskra aðila hefur aukist gríðarlega mikið á síðustu árum. Í dag má segja að Íslendingar komi nálægt alþjóðaflugi sem teygir sig frá Bandaríkjunum og alla leið til Asíu. Lengi vel má segja að Icelandair hafi verið eina félagið sem eitthvað kvað að á markaðnum fyrir utan landið en á síðustu árum hefur félögunum sem mynda Avion Group í dag vaxið fiskur um hrygg ásamt því sem önnur flugfélög hafa verið stofnuð. Í því sambandi má nefna félög eins og Bláfugl, sem nú er í eigu FL Group, og Iceland Express, sem virðist eftir nokkra byrjunarerfiðleika vera komið á beinu brautina. Til viðbótar þessu hafa Íslendingar einnig verið mjög umfangsmiklir í fjárfestingum í erlendum flugfélögum.

Ítarleg fréttaskýring birtist í Viðskiptablaðinu í dag.