Rekstur íslensku flugleitarvélarinnar Dohop.com hefur gengið mjög vel það sem af er ári. Á fyrstu ellefu mánuðum ársins hafa tekjur félagsins af flug-, hótel- og bílaleit aukist um 226% miðað við sama tímabil í fyrra eða ríflega þrefaldast segir í tilkynningu. Sömuleiðis hefur gestafjöldi á Dohop.com nær tvöfaldast á fyrstu ellefu mánuðum þessa árs miðað við sama tímabil árið 2008. Dohop ehf. var stofnað í Reykjavík árið 2004 og þar starfa tólf manns.

Á þessu ári hefur Dohop aukið við þjónustu til viðskiptavina og býður nú auk flugleitarinnar upp á hótel- og bílaleit. Leit að bílaleigubílum er nýjung og hefur farið vel af stað, tekjur aukist hratt og gestir vefsins greinilega ánægðir með aukna þjónustu.

Sérstaða flugleitarvélar Dohop felst í því að notendur geta fundið ódýr tengiflug með hefðbundnu flugfélagi annars vegar og lágfargjaldaflugfélagi hins vegar. Dohop býður upp á fleiri slíkar tengingar en nokkur önnur flugleit í heiminum og hjálpar þannig ferðalöngum að finna eins hagkvæman kost og völ er á hverju sinni.

Flugleit Dohop geymir upplýsingar um 50 milljón flug með 600 flugfélögum og finnur tengingar milli 3000 flugvalla víðsvegar um heiminn.