Íslenska flugstjórnarsvæðið er með þeim stærri í heiminum en það nær frá 61° norðlægrar breiddar upp á Norðurpól og frá 0° lengdarbaug vestur fyrir Grænland. Flugstjórnarmiðstöðin veitir hins vegar aðeins þjónustu í kringum Grænland yfir 20.000 feta hæð samkvæmt sérstöku samkomulagi milli ríkisstjórna Íslands og Danmerkur frá árinu 1976.

„Eitt af aðalsmerkjum okkar er að við auglýsum okkar þjónustu sem „free route airspace“,“ segir Þórdís Sigurðardóttir, deildarstjóri Flugstjórnarmiðstöðvarinnar.

„Það þýðir í raun að flugfélögum er frjálst að fljúga hvar sem þau vilja í svæðinu okkar og þurfa því ekki að fylgja fyrirfram ákveðnum leiðum svo framarlega sem engin önnur vél sé fyrir.“

Alþjóðaflugmálastofnunin hefur falið sjö ríkjum að sjá um flugumferðarþjónustu yfir Norður-Atlantshafi: Bretlandi, Kanada, Noregi, Bandaríkjunum, Danmörku, Portúgal og Íslandi. Rétt rúmlega fjórðungur flugumferðar á leið yfir Norður-Atlantshafið fer í gegnum íslenska flugstjórnarsvæðið. Að langstærstum hluta þjónar Flugstjórnarmiðstöðin alþjóðaflugi en stærstur hluti umferðarinnar liggur á milli Evrópu og Norður-Ameríku og eru tveir helstu álagstímar í flugstjórnarmiðstöðinni um klukkan 14.00 á daginn og 04.00 á nóttu til.

Fá greitt fyrir hvern floginn kílómetra

En hvernig hefur Flugstjórnarmiðstöðin tekjur af starfsemi sinni?

„Við fáum greitt fyrir hvern floginn kílómetra,“ segir Þórdís og bætir því við að verðið á hverja hundrað kílómetra um þessar mundir sé um 9,22 pund. „Verðið núna miðast við hvert verðið var í fyrra. Ef staðreyndin er sú að reksturinn er hagkvæmari en við höfðum áætlað, þá þurfum við að skila umfram ágóðanum. Ef það er meiri kostnaður en við höfðum reiknað með þá rukkum við meira árið eftir. Við eigum að reka okkur á núlli í raun,“ segir Þórdís.

Nánar er fjallað um málið í Flugblaðinu, sem fylgdi Viðskiptablaðinu í vikunni. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .