Lág framlegð á danska fríblaðamarkaðnum leiðir óneitanlega til þess að arðsemi blaðaútgáfu er síst mikil í jafnmikilli samkeppni og nú ríkir.

Í dag koma út fjögur fríblöð í Danmörku; Urban, 24timer, metroXpress og Nyhedsavisen sem er að hálfu í eigu Dagsbrún Media.

Poul Funder Larsen, blaðamaður á Børsen hefur fylgst með danska fjölmiðlamarkaðnum um nokkurt skeið. Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið að útgáfa stóru ekki hafi ekki fjárhagslegan ávinning til skamms tíma. Heldur hafi þau verið sett á markað aðeins til að berjast gegn uppgangi Nyhedsavisen.

„Þar að auki er framlegð á danska prentmiðlamarkaðnum afar lítil. Ekkert blaðanna hefur sýnt hagnað hingað til, og á meðan metroXpress og Urban voru tvö á markaðnum var aðeins hið fyrrnefnda sem skilaði gróða.“

Larsen varar þó við því að menn afskrifi blöðin strax.

„Menn hafa haldið því fram síðustu átján mánuðina að þetta geti ekki gengið til lengdar, en samt eru öll blöðin á sínum stað. Ég er þó ekki viss um að þetta viðskiptamódel gangi í Danmörku, sérstaklega það sem Nyhedsavisen vinnur eftir. Þrátt fyrir að dreifing í heimahús sé nú aðeins í Árósum og Kaupmannahöfn er sá kostnaðarliður afar veigamikill. Mér skilst að þetta hafi gengið upp á Íslandi, en er ekki viss um að það geri það hér,“ segir hann.