*

sunnudagur, 5. desember 2021
Innlent 8. ágúst 2016 19:07

Íslenska frumkvöðla skortir metnað

Davíð Helgason, einn af stofnendum Unity, vill sjá meiri metnað frá íslenskum frumkvöðlum.

Alexander F. Einarsson
Davíð Helgason er einn af stofnendum Unity Technologies.
Heiða Halls

Davíð Helgason er einn af stofnendum hugbúnaðarfyrirtækisins Unity Technologies og starfaði sem forstjóri þess til haustsins 2014. Í dag situr hann í stjórn fyrirtækisins og tekur þátt í stefnumörkun þess.

Davíð segir að umhverfi til nýsköpunar á Íslandi sé „sæmilegt en ekki frábært“. Lítið fjármagn sé veitt í frumkvöðlafyrirtæki og teymin fá. Fyrst og fremst vilji hann sjá miklu meiri metnað.

„Íslenskir frumkvöðlar eru alls ekki nógu metnaðarfullir. Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart hvað ég hitti mikið af stofnendum sem í alvörunni hugsa um Ísland sem heimamarkað. Það er fínt og fullt af fyrirtækjum á Íslandi lifa á því, en það er ekki þannig sem þú býrð til heimsyfirráð eða stórfyrirtæki eða það sem mér finnst skemmtilegt, þau fyrirtæki sem geta vaxið og vaxið og vaxið,“ segir Davíð.

Bendir hann á Danmörku sem dæmi, þar sem markaðurinn er um 20 sinnum stærri en á Íslandi en samt horfa allir góðir frumkvöðlar þar út í heim.

„Ég skil vel freistinguna, fullt af sprotafyrirtækjum segjast ætla að fara áfram út seinna og það er kannski einhver metnaður þar, en það er gildra að fara ekki út strax. Það er klárt fólk hérna sem gæti vel verið að taka þátt á veraldarsenunni, eins og Þorsteinn Friðriksson [innsk. stofnandi Plain Vanilla] fór og gerði. Hann fór á heimsmarkað með vöru sem átti heima þar, CCP gerði það sama og fór með leikinn út í heim. Þessi fyrirtæki hugsa alþjóðlega, það sama er með Meniga. Það gerist ekkert án geðsjúks metnaðar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: tækni Davíð Helgason Unity