Íslenska hagkerfið stendur á erfiðum tímamótum, að mati framkvæmdastjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hún mælir með því að Seðlabankinn haldi áfram vel á spilum peningamálastefnunnar til þess að ná verðbólgumarkmiðum sínum og auka tiltrú á íslensku krónuna.

Mælt er með því að stjórnvöld fylgi fast eftir loforði sínu um breytingar á Íbúðalánasjóði sem er, að mati stjórnarinnar, mikilvægt til þess að bæta peningamálastefnuna.

Jafnframt telur hún rétt að auka gjaldeyrisforðann þegar aðstæður leyfa og bæta gegnsæi í kerfinu.

Þetta kemur fram í skýrslu sem birtist síðastliðinn föstudag.

Þá nefnir framkvæmdastjórnin að grípa þurfi til umfangsmikilla aðgerða til þess að vernda efnahagsreikninginn; það gæti einnig haldið í skefjum vaxandi efnahagsreikningi bankanna.

Framkvæmdastjórnin segir að frekari gengislækkun krónu gæti aukið á verðbólgu, minnkað kaupmátt heimilanna og í ljósi mikilla erlendra lána auk lánsfjárkreppu aukið á fjármagnskostnað. Því sér hún litla sem enga ástæðu til að losa fast takið á peningamálastefnunni.

Framkvæmdastjórnin segir að gengi krónunnar sé fyrir neðan jafnvægisgengi. Flestir framkvæmdastjóranna töldu að minni útþensla í ríkisfjármálum myndi hjálpa til í baráttunni við verðbólgu og viðhalda trausti á stjórnvöld, sem styddi þau í að streitast á móti þrýstingi um aukin ríkisútgjöld.

Nokkrir framkvæmdastjóranna óttast þó samdrátt og sjá því færi á að stjórnvöld komi með mótvægisaðgerðir til þess að lendingin verði mjúk.

Líkt og flestum er kunnugt hefur mikið hagvaxtarskeið ríkt á Ísandi síðustu ár, sem meðal annars var keyrt áfram af erlendu lánsfé. Því ríkir töluvert ójafnvægi í kerfinu og skuldsettur einkageirinn reiðir sig mjög á erlend lán. Aðgengi að erlendu lánsfjármagni hefur verið skert og því er hagkerfið að kæla sig niður.