Moody's hefur gefið út árlega skýrslu sína um íslenska ríkið, sem unnin var í kjölfar heimsóknar frá sérfræðingum Moody's í júní. Í upphafsorðum skýrslunnar segir að efnahagsbati Íslands sé á sjálfbærari grunni en hagvöxtur fortíðar. Lífeyriskerfi landsins er sagt fullfjármagnað og lýðfræði landsins sögð gera það að verkum að rekstur ríkisins er metinn sjálfbær.

Í skýrslunni er aðgerðaáætlun um afnám hafta sett í forgrunn. Bent er á að aðgerðirnar fela í sér nokkra áhættu. Engu að síður er fórnarkostnaður þess að vera með höftin áfram sagður meiri en hugsanlegur tímabundinn skaði sem afnámið getur haft í för með sér.

Stofnanir samfélagsins góðar en hagkerfið í meðallagi

Styrkleiki íslenska hagkerfisins er metinn í hærra meðallagi (M+). Ísland er þar í flokki með löndum á borð við Lettland og Máritíus, en nokkru neðar en Úrúgvæ og Írland. Moody's segir að skortur á fjárfestingu hafi hamlað hagvexti hér á landi undanfarin ár. Þá segir berum orðum að fjárfestingar í stóriðju á landsbyggðinni hafi sjaldnast í för með sér mikla þenslu á vinnumarkaði þar sem vinnuaflið er oftast flutt inn frá Austur-Evrópu.

Stofnanagæði íslensks samfélags eru metin mjög góð í skýrslunni. Á meðal þeirra þátta sem þar eru undir eru umgjörð fjármálamarkaðarins, peningastefnan og gæði ríkisstofnana. Innviðir landsins eru sagðir góðir og vinnumarkaðurinn skilvirkur. Þá er uppgangur Pírata ekki sagður ógna efnahagsstöðugleika hér á landi, þó fylgjast þurfi vel með þróun mála ef hinn nýji flokkur kemst í ríkisstjórn.