Oft er gert mikið úr því að lífslíkur íslenskra karla og kvenna séu með því besta sem gerist í heiminum. Í Vefriti fjármálaráðuneytisins er bent á annað atriði varðandi aldur íslensku þjóðarinnar sem ekki síður er athyglisvert en það er hversu ung þjóðin er í alþjóðlegum samanburði. Það að íslenska þjóðin er jafn hlutfallslega ung og raun ber vitni er hagfellt frá sjónarmiði lífeyriskerfisins.

Í aldurshópnum 15-64 ára er Ísland með svipað hlutfall og aðrar þjóðir. Í aldurshópnum 65 ára og eldri er Ísland með lægsta hlutfall þessara þjóða, eða 11,7% þjóðarinnar. Aðeins Bandaríkin eru með svipað hlutfall. Hlutfall Íslendinga er 3,4-8,3 prósentustigum lægra en hjá öðrum samanburðarþjóðum. Mestur er munurinn við Þýskaland og Japan sem hafa 19,2% og 20% þjóðarinnar í þessum aldurshóp.

Öldrun samfélagsins verður síðar á ferðinni en hjá samanburðarþjóðunum. Þá mun unga kynslóðin ganga inn í það kerfi lífeyrissparnaðar sem byggt hefur verið upp á undanförnum áratugum og geta sparað fyrir efri árum. Því er allt útlit fyrir að öldrun samfélagsins verði ekki eins fjárhagslega krefjandi og í mörgum öðrum löndum. Til dæmis er staðan mun betri en í Bandaríkjunum, sem eru með sambærilega lýðfræðilega dreifingu en mikinn uppsafnaðan halla á lífeyrisskuldbindingum, eða í Japan og Þýskalandi þar sem meðalaldur íbúanna er talsvert hærri og lífeyrissparnaður ekki til staðar í sama mæli og hér á landi, samkvæmt því sem segir í Vefritinu.