Í tæpan mánuð, eða frá því 12. júní síðastliðinn hefur gengi krónunnar verið nánast óbreytt gagnvart evrunni, og veltan á millibankamarkaði nær engin eða fyrir 8 milljónir, en þá kostaði evran 141,5 krónur sem er sama verð og hún fæst á nú þegar þetta er skrifað samkvæmt heimasíðu Seðlabankans .

Telur Greining Íslandsbanka að núverandi gengi krónunnar endurspegli því raungengi sem samræmist ágætlega jafnvægi í erlendum viðskiptum og jafnmiklar líkur á að gengið þróist til hækkunar eða lækkunar. Frá áramótum hafi gengi krónunnar lækkað um 3% gagnvart körfu helstu viðskiptamynta en ef horft er til síðustu 12 mánaða nemur gengislækkunin ríflega 12%.

Bendir bankinn á að verð krónunnar nú sé á svipuðum slóðum og það var að jafnaði árið 2016, en raungengi krónunnar sé nú nokkuð yfir langtímameðaltali sínu, sem þó sé villandi mælikvarði í ljósi mikilla breytinga á íslensku hagkerfi undanfarinn áratug.

Sögulega góð staða þjóðarbúsins með erlendar eignir umfram skuldir sem nema um það bil fimmtungi af Vergri landsframleiðslu leiði til hærra jafnvægisgengis en ella. En spurning sé hvort það sé nógu lágt til að styðja við útflutningsgreinar.

„Lauslegt tölfræðimat okkar bendir til þess að 10 prósentustiga bati á hreinni erlendri stöðu í hlutfalli við VLF geti farið saman við u.þ.b. 0,5 prósentu hagfelldari viðskiptajöfnuð í hlutfalli við VLF ár hvert að öðru jöfnu. Svo vill til að það samband rímar ágætlega við þá einfölduðu langtímaforsendu að arðsemi hreinnar erlendrar eignar ætti að vera í kring um 5%,“ segir í greiningunni.

„Jafnvægisástand á gjaldeyrismarkaði ætti því ekki að koma á óvart um þessar mundir, þótt vissulega sé aldrei á vísan að róa hvenær meira fjör færist í leikinn og Fróðárfriður í gengi krónunnar tekur enda.“