Íslenska krónan hefur verið í stöðugum styrkingarfasa á þriðja ársfjórðungi þessa árs og hefur hún hækkað um um það bil 8% frá því í lok júní síðastliðnum, segir greiningardeild Kaupþings banka.

?Í viðskiptum dagsins fór gengi krónunnar í 122 stig sem er lægsta gildi gengisvísitölunnar síðan í byrjun apríl síðastliðinn. Hækkunin gekk hinsvegar að nokkru leyti til baka og við lokun markaða stóð gengi krónunnar í 122,9 og styrking dagsins því 1,14%. Ástæður hækkunar á gengi krónunnar í dag og síðustu vikur má að sumu leyti rekja til endurvakningar krónubréfaútgáfunnar, en í dag var til dæmis tilkynnt um krónubréfaútgáfu fyrir 3 milljarða króna," segir greiningardeildin.

Það er Nordic Investment Bank sem stendur að útgáfunni og er gjalddagi þeirra í september 2007.

?Hinsvegar virðist einnig um töluverða beina stöðutöku að ræða en áhugi á hávaxtalöndum hefur aukist á ný eftir að hafa dvínað fyrr á árinu. Svo virðist sem erlendir fjárfestar hafi endurheimt trú sína á krónunni og íslenska hagkerfinu almennt. Þannig hefur íslenska krónan nú aftur fengið vind í seglin en áframhaldandi hækkanir munu þó að miklu leyti velta á því hvort hin erlenda tiltrú muni smitast yfir til íslenskra markaðsaðila," segir greiningardeildin.