„Orðið „kúl“ (e.cool) á vel við hér og ég á ekki við ÍSland,“ segir blaðamaðurinn Clive Myrie hjá BBC sem í dag skrifar um ferð sína til Íslands í síðustu viku.

Fyrirsögnina á umfjöllun Myrie mætti túlka þannig: Íslenska kúlið gefur von fyrir framtíðina

Marie lýsir heimsókn sinni á veitingastað 101 hótel í Reykjavík. Þangað hafi hann farið ásamt öðru starfsfólki BBC eftir að hafa fjallað um efnahagsörðugleikana hér á landi.

Myrie lýsir því hvernig hvítvínið hefði náð fullkomleika í köldu glasinu, stólarnir verið úr svörtu leðri, veggirnir hvítir og ljósin dimm á meðan þægileg tónlist var spiluð úr Bang and Olufsen hljóðkerfi.

„Það var aðeins fyrir veikingu krónunnar sem við höfðum tækifæri á að snæða á þessum stað,“ segir Myrie.

Myrie segir 101 hótel gefa táknræna mynd af þeirri velferð sem verið hefur á Íslandi undanfarin ár. Þá segir hann landið hins vegar nú vera á barmi gjaldþrots.

Þá greinir Myrie frá því að hann hafi tekið viðtal við Þórð Friðjónsson, forstjóra Kauphallarinnar og Geir H. Haarde, forsætisráðherra.

„Það kom mér verulega á óvart hversu rólegir þeir voru í viðtölunum,“ segir Myrie og bætir því við að báðir hafi þeir slegið á létta strengi.

„Gæti maður sagt það sama um Gordon Brown við svipaðar aðstæður?“ spyr Myrie en bætir því við að báðir hafi þeir tekið ástandið alvarlega.

Hér má sjá umfjöllun Myrie.