Vaxtafundur Seðlabanka Íslands
Vaxtafundur Seðlabanka Íslands
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Ekkert ríki eyddi jafnmiklu í bankakerfið og Ísland, að frátöldu Írlandi, á árunum 2007-2009. Ísland setti um fimmtung landsframleiðslunnar í bankakerfið vegna efnahagskreppu og Írar nærri helming.

Fjallað er um málið í nýjasta tölublaði Vísbendingar. „Sú skoðun kemur allvíða fram að Íslendingar hafi valið bestu leiðina út úr efnahagsvandanum árið 2008 með því að fella gengið og borga ekki tapið af gjaldþroti bankanna. Í því sambandi er oft vísað á önnur lönd eins og Írland, Grikkland og Spán. Þess vegna vekur það athygli að í nýjustu skýrslu OECD kemur fram að ekkert land eyddi jafnmiklu í bankakerfið og Ísland að frátöldu Írlandi,“ segir í inngangi greinarinnar.

Skiptingin á Íslandi er þannig að um 11% af landsframleiðslunni komu vegna lána frá Seðlabankanum, um 4% fóru í endurreisn bankanna og um 2% í Íbúðalánasjóð. Nú hefur raunar komið í ljós að meira fór í hann. Afgangurinn er ábyrgðir lána sem féllu á ríkið.

Til samanburðar við önnur ríki settu Hollendingar um 13% af landsframleiðslu sinni í bankakerfið og Bretar um 9%.

Í Vísbendingu segir að ástæðan fyrir því að Íslendingar settu ekki enn meira inn í bankana hafi einfaldlega verið sú að ríkið fékk hvergi lán vorið 2008. „Eftir á að hyggja var þessi tregða vinaþjóða til þess að lána Íslendingum peninga hin mesta gæfa. Hugmyndir um stórlán frá Rússum eða Kínverjum hefðu getað breytt stöðu Íslands meðal venstrænna þjóða, en lánin hefðu ekki leyst neinn vanda heldur þvert á móti dýpkað hann.“