Eignir íslenska lífeyrissjóðakerfisins sem hlutfall af landsframleiðslu er í fyrsta skipti orðnar þær mestu í heimi, samkvæmt tölum úr Pension Markets in Focus frá Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunin, OECD. Samkvæmt tölunum, sem eru frá árinu 2006, voru eignir íslensku lífeyrissjóðanna 132,7% af vergri landsframleiðslu það ár, nokkuð meiri en sparnaður Hollendinga, 130% og Svisslendinga, 122,1%. Frá þessu er greint á heimasíðu Landssamtaka lífeyrissjóða.

Að meðaltali var lífeyrissparnaður 72,5% af landsframleiðslu hjá OECD ríkjunum í árslok 2006, en var 70,7% í árslok 2005. Auk landanna þriggja, sem nefnd eru hér að ofan, voru þrjú lönd til viðbótar með hlutfall yfir meðaltalið, þ.e. Ástralía, 94,3%, Bretland, 77,1% og Bandaríkin, 73,7%. Finnland var rétt neðan við meðaltalið með 71,3%.

Hlutfallið í Kanada og Írland var um 50%, í Danmörku var hlutfallið 32,4%, í Svíþjóð 9,5% og í Noregi 6,8%. Hafa ber í huga að í Danmörku, Svíþjóð og Noregi eru til sjóðsmyndandi lífeyriskerfi, sem tilheyra almannatryggingakerfum landanna, t.d. norski olíusjóðurinn, ATP-sjóðurinn í Danmörku og AP-sjóðirnir í Svíþjóð og skekkir það nokkuð myndina í þessum samanburði, en breytir þó ekki þeirri staðreynd að Ísland er í fyrsta sæti í heiminum. Í  Frakklandi, Lúxemborg og Tyrklandi er hlutfallið 1% en lægst er það í Grikklandi eða ekki teljanlegt.