*

þriðjudagur, 15. júní 2021
Fólk 22. september 2020 15:26

Íslenska lögfræðistofan ræður Teit Björn

Teitur Björn Einarsson er genginn til liðs við Íslensku lögfræðistofuna. Fyrrum aðstoðarmaður Bjarna Ben og þingmaður.

Ritstjórn
Teitur Björn Einarsson er nýr lögfræðingur hjá Íslensku lögfræðistofunni.
Haraldur Guðjónsson

Teitur Björn Einarsson, lögmaður, bætist í hóp lögmanna Íslensku lögfræðistofunnar nú í september. Teitur útskrifaðist frá lagadeild Háskóla Íslands árið 2006 og varð héraðsdómslögmaður árið 2007. Teitur er kvæntur Margréti Gísladóttur og eiga þau saman tvo syni.

Teitur hefur í gegnum tíðina sinnt félaga-, skatta- og lögfræðiráðgjöf ásamt því að hafa gegnt fjölbreyttum trúnaðar- og félagsstörfum. Hann var aðstoðarmaður fjármálaráðherra árin 2014-2016 og þingmaður Sjálfstæðisflokksins kjörtímabilið 2016-2017.

„Það er mikið fagnaðarefni fyrir okkur að fá Teit til liðs við hópinn og við hlökkum til þess að geta í auknum mæli sinnt ráðgjöf utan höfuðborgarsvæðisins,“ segir Haukur Örn Birgisson, einn eiganda Íslensku lögfræðistofunnar, en Teitur Björn er með starfsstöð í Skagafirði.

„Við sinnum margvíslegum verkefnum og ráðgjöf fyrir einstaklinga, stofnanir og fyrirtæki um land allt og það er tímabært að færa út kvíarnar svo auðsóttara verði að veita persónulega þjónustu á fleiri stöðum á landinu.“

Íslenska lögfræðistofan annast alla almenna lögfræðiráðgjöf og hagsmunagæslu fyrir einstaklinga, fyrirtæki, stofnanir og erlenda aðila. Hjá stofunni starfa átta lögmenn með málflutningsréttindi á öllum dómstigum. Íslenska lögfræðistofan er með aðsetur í Stóra-Turni Kringlunnar.