Teitur Björn Einarsson, lögmaður, bætist í hóp lögmanna Íslensku lögfræðistofunnar nú í september. Teitur útskrifaðist frá lagadeild Háskóla Íslands árið 2006 og varð héraðsdómslögmaður árið 2007. Teitur er kvæntur Margréti Gísladóttur og eiga þau saman tvo syni.

Teitur hefur í gegnum tíðina sinnt félaga-, skatta- og lögfræðiráðgjöf ásamt því að hafa gegnt fjölbreyttum trúnaðar- og félagsstörfum. Hann var aðstoðarmaður fjármálaráðherra árin 2014-2016 og þingmaður Sjálfstæðisflokksins kjörtímabilið 2016-2017.

„Það er mikið fagnaðarefni fyrir okkur að fá Teit til liðs við hópinn og við hlökkum til þess að geta í auknum mæli sinnt ráðgjöf utan höfuðborgarsvæðisins,“ segir Haukur Örn Birgisson, einn eiganda Íslensku lögfræðistofunnar, en Teitur Björn er með starfsstöð í Skagafirði.

„Við sinnum margvíslegum verkefnum og ráðgjöf fyrir einstaklinga, stofnanir og fyrirtæki um land allt og það er tímabært að færa út kvíarnar svo auðsóttara verði að veita persónulega þjónustu á fleiri stöðum á landinu.“

Íslenska lögfræðistofan annast alla almenna lögfræðiráðgjöf og hagsmunagæslu fyrir einstaklinga, fyrirtæki, stofnanir og erlenda aðila. Hjá stofunni starfa átta lögmenn með málflutningsréttindi á öllum dómstigum. Íslenska lögfræðistofan er með aðsetur í Stóra-Turni Kringlunnar.