Íslenska ríkið krefst þess að máli þýska bankans Deka Bank gegn íslenska ríkinu, m.a. á grundvelli þess að boðuð yfirtaka ríkisins á 75% hlut í Glitni 29. september hafi verið ólögleg, verði vísað frá. Málflutningur vegna þeirrar kröfu fer fram 15. febrúar á næsta ári, samkvæmt ákvörðun Eggerts Óskarssonar dómara við fyrirtöku á málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Deka Bank er kröfuhafi í bú Glitnis og því snýr málið m.a. að aðgerðum ríkisins gagnvart Glitni. Einnig snýst málið um neyðarlögin, sem beitt var við yfirtöku á innlendri starfsemi föllnu bankanna, og þá hvort þau fást staðist.

Þýski bankinn vill að íslenska ríkið greiði sér 338 milljónir evra, um 62 milljarða króna, í skaðabætur vegna setningu neyðarlaganna.

Mál Deka Bank er fyrsta málið sem viðkemur fyrrnefndum álitamálum og er líklegt að endanleg niðurstaða í því muni hafa fordæmisgildi vegna sambærilegra mála.

Skarphéðinn Þórisson ríkislögmaður sagði í samtali við Viðskiptablaðið, að lokinni fyrirtöku, að krafan byggði meðal annars á því að málatilbúnaður stefnanda, Deka Bank, sé óljós. Ekki sé útskýrt með nægilegum sterkum rökum, að mati ríkisins, að aðgerðir ríkisins vegna vanda Glitnis hafi valdið skaðabótaskyldu tjóni gagnvart Deka Bank. "Þá er ekki skýrt hvað hefði gerst ef ríkið hefði ekkert aðhafst," sagði Skarphéðinn í samtali við blaðamann í Héraðsdómi í morgun.

Við fyrirtöku í morgun voru lögð fram gögn, m.a. um efnahag Glitnis og Íslandsbanka, en þau eru notuð til þess að undirbyggja betur ákveðinn hluta málsins. Ragnar Aðalsteinsson hrl., lögmaður Deka Bank, lagði gögnin fram.