Íslenska ríkið mun eignast 0,2% hlut í Stoðum hf., áður FL Group, staðfesti yfirskattanefnd úrskurð skattayfirvalda frá því í lok júní síðastliðins um að félagið hafi átt að reikna og skila virðisaukaskatti ofan á reikninga frá erlendum dótturfélögum þess í London og Kaupmannahöfn á árunum 2006 og 2007. Stoðir hefur þegar gefið út nýtt hlutafé til að mæta þessum úrskurði, en samtals fær ríkið hlutafé upp á 37 milljónir króna að nafnvirði afhent.

Júlíus Þorfinnsson, framkvæmdastjóri Stoða, segir að hlutabréfin verði gefin út með fyrirvara um endanlegar lyktir málsins en Stoðir telja niðurstöðu skattayfirvalda ranga og hafa skotið úrskurði Ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar.

Krafan er 741 milljón

Úrskurður Ríkisskattstjóra kemur i kjölfar enduráætlunar á skattaskuld Stoða. Hún byggir á rannsókn skattrannsóknastjóra á félaginu sem hófst árið 2008 og lauk í desember 2010.

Uppgjörið miðast við að 5% af heildarkröfu skattayfirvalda á hendur Stoðum, sem er 741 milljón krónur, verði greidd. Ástæðan er sú að stjórn Stoða telur allar skattakröfur vera samningskröfur og því falli þær undir skilmála nauðasamnings félagsins sem gerður var í júní 2009. Samkvæmt honum eru allar óveðtryggðar kröfur gerðar upp með 1 milljón króna eingreiðslu og með því að 5% af viðbótarkröfunni fáist greitt í almennum hlutum í Stoðum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Meðal annars efnis í blaði morgundagsins er:

  • Skilur eftir slóð gjaldþrota félaga
  • Arion banki hyggur á útgáfu
  • Uppgjör Iceland Express
  • Vaxtamunarviðskiptin hluti af landslaginu
  • Viðtal við Einar Sigurðsson, forstjóra Mjólkursamsölunnar
  • Uppgjör bankanna minna á árið 2008
  • Vignir Rafn afhendi gögn
  • Svipmynd Christine Lagarde, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins
  • Auknir skattar á bankastarfsemi
  • Kúnstin að kveikja í vindli