Íslenska ríkið var í dag dæmt til að greiða auglýsingastofunni J&L ehf., Jónsson & Le´Macks, rúmar fimm milljónir króna í skaðabætur vegna þátttöku auglýsingastofunnar í verkefninu Inspired by Iceland. Ríkið þar að auki að greiða 1,2 milljónir króna í málskostnað.

Aðdragandi málsins er sá starfshópur á vegum ríkisins óskaði eftir tillögu að markaðsátaki frá auglýsingastofunni í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli. Fjórum öðrum auglýsingastofum gafst einnig kostur á að skila tillögu. Í beiðni starfshópsins kom fram að fyrir tillöguna fengjust greiddar 75.000 krónur. Ríkiskaup bentu starfshópnum hins vegar á að þjónusta sem þessi væri útboðsskyld og gæti þetta fyrirkomulag því ekki staðið. Starfshópurinn tilkynnti þá auglýsingastofunni að ekki yrði hægt að standa við þá áætlun sem lagt var upp með. Í staðinn myndu ferðaþjónustufyrirtæki sjá um framleiðslu kynningar- og auglýsingaefnis og hefðu fulltrúar þeirra valið Íslensku auglýsingastofuna sem meginframleiðenda og Fíton til að efna til þjóðarátaks á internetinu. Auglýsingastofan Jónsson & Le´Macks hafði þá þegar varið 5 milljónum króna í gerð tillögunnar.

Hæstiréttur komst í morgun að þeirri niðurstöðu að líta yrði á starfshópinn sem opinberan aðila og hefði hann því átt að standa að innkaupaferlinu með almennu eða lokuðu útboði. Undan því hefði ekki verið hægt að víkjast með því að klæða innkaupin á síðari stigum málsins í þann búning að einkafyrirtæki sem hefðu verið þátttakendur í starfshópnum bæru kostnað af þeim með hluta framlaga sinna. Á þeim grundvelli kemst dómurinn að því að ríkið sé skaðabótaskylt gagnvart auglýsingastofunni.