Íslenska ríkið var í dag sýknað í Hæstarétti af 337 milljóna evra kröfu þýska bankans Deka Bank Deutsche Girozentrale, en bankinn hélt því fram að íslenska ríkið og ríkisstofnanir hefðu fyrir hrun bankanna, meðan á því stóð og eftir hrun valdið sér tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti. Fjárhæðin er umtalsverð, en í krónum á núvirði nam krafan um 54 milljörðum króna.

Deka lánaði Glitni 667 milljónir evra á fyrri hluta árs 2008 í endurhverfum viðskiptum um kaup og sölu á fjármálagerningum gefnum út af Landsbankanum og Kaupþingi. Vísaði Hæstiréttur m.a. til þess að við mat á lánshæfi Glitnis lagði Deka til grundvallar ársskýrslu Glitnis vegna ársins 2006 og árshlutaskýrslu hans vegna fyrri hluta árs 2007, þótt lánveitingin snerist um gríðarlegar fjárhæðir, hann væri að ganga til viðskipta við Glitni í fyrsta skipti og honum mætti vera ljós sú hætta að hvorki Glitnir né hinir íslensku bankarnir gætu staðið við skuldbindingar sínar þegar að skuldadögum kæmi. Deka var með þeirri háttsemi sinni talinn hafa sýnt slíkt aðgæsluleysi að telja yrði að þær væri að finna frumorsök og aðalástæðu tjóns hans.

Þá hafnaði Hæstiréttur því að með setningu Neyðarlaganna svokölluðu hefði íslenska ríkið brotið gegn ákvæðum stjórnarskrár og hafnaði því einnig að laga- og reglugerðarsetning fyrir hrun hafi brotið gegn stjórnarskrá eða EES-samningnum. Því var einnig hafnað að sú ákvörðun að veita Glitni ekki neyðarlán í lok september 2008 hefði verið saknæm og ólögmæt, enda benti flest til að á þessum tíma hafi verið svo komið fyrir Glitni að önnur viðbrögð við vanda hens hefðu ekki skipt sköpum fyrir líkur hans til að standa af sér erfiðleikana sem hann glímdi við.