Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað íslenska ríkið í máli sem Síminn hf. höfðaði gegn því til að ógilda ákvörðun Ríkisskattstjóra um endurákvörðun opinbera gjalda. Dóminn má lesa hér.

Síminn höfðaði málið vegna ákvörðunar Ríkisskattstjóra um að vaxtagjöld hefðu verið offærð í skattskilum, en um var að ræða vaxtagjöld vegna lána sem tekin höfðu verið vegna kaupa Skipta ehf. á Símanum hf. árið 2005.

Síminn hf. bakfærði á árinu 2013 vaxtagjöld að fjárhæð 22,6 milljarðar króna sem tengist ágreiningi við Ríkisskattstjóra. Með því voru að fullu leyti tekin inn neikvæð áhrif á afkomu félagsins vegna framangreinds úrskurðar á því tímabili sem var til skoðunar. Þar sem Síminn hf. hefur þegar tekið fullt tillit til úrskurðar Ríkisskattstjóra í reikningsskilum félagsins hefur dómurinn ekki áhrif á afkomu Símans hf. líkt og kemur fram í tilkynningu um málið á vef Kauphallarinnar.

Síminn hefur ekki ákveðið hvort að dómnum verði áfrýjað til Hæstaréttar.

Skuldabréfalán og samsköttun

Kaup Skipta ehf. á Símanum hf. árið 2005 voru fjármögnuð að hluta með eiginfjárframlagi og að hluta með skuldabréfaláni. Við samrunann tók Síminn hf. við öllum eignum og skuldum svo og öðrum réttindum og skyldum Skipta ehf., þ.á.m. skuldabréfaláninu. Frá og með skattframtali fyrir rekstrarárið 2007 hefur Síminn hf. verið samskattaður með Skiptum hf. Lánasamningi vegna skuldabréfaláns Símans hf. var síðar breytt þannig að Skipti hf. varð skuldari samkvæmt honum. Samhliða skuldskeytingunni stofnaðist krafa milli félaganna, segir í útboðslýsingu Símans hf.

Hæstiréttur hafði áður fjallað um lán móðurfélags sem hefði verið tekið í þágu eiganda þess félags til að greiða þáverandi eigendum dótturfélagsins söluverð þess. Hæstiréttur komst þá að þeirri niðurstöðu að lánin hefðu þannig ekki verið tekin í þágu sameinaðs félags og voru rekstri þess óviðkomandi. Því var ekki hægt að draga vaxtagjöld lánsins frá skatti.