Heildsalan Innes krefur ríkissjóð um greiðslu vegna oftekinna tolla. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á miðvikudag í síðustu viku mál. Til vara er krafist viðurkenningar á óheimilli ákvarðanatöku landbúnaðarráðherra vegna tollkvóta á landbúnaðarvörum. Málið varðar m.a. framkvæmd og fyrirkomulag tollkvóta á landbúnaðarafurðum.

Fram kemur í tilkynningu frá Samtökum verslunar og þjónustu (SVÞ), að forsaga málsins sé sú að með reglugerðum árin 2009-2011 um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á tilteknum landbúnaðarvörum hafi landbúnaðarráðherra ákveðið að miða svokallaðan tollkvóta við verð, þ.e. verðtoll, en ekki magn. Með ákvörðun sinni hafi hann breytt út frá þeirri framkvæmd sem áður hafði tíðkast. Rifjað er upp að frá árinu 1995 til ársins 2008 hafði magntolli ávallt verið beitt, þ.e. tiltekið gjald lagt á hvert innflutt kíló. Á þessu tímabili hafði m.a. skapast reynsla og þekking innflutningsaðila á markaðsaðstæðum á Íslandi að teknu tilliti til áhrifa magntolla á eftirspurn hinna ýmsu vara. Í kjölfar ákvörðunar ráðherra voru athugasemdir gerðar við þá breytingu sem hefur leitt til gjörbreyttra markaðs-forsendna og óþarfa tjóns fyrir neytendur sem og innflytjendur.

Í júní í hittifyrra beindu SVÞ kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna ákvörðunar ráðherra um tollkvóta varðandi innflutning á nautgripa-, svína- og alifuglakjöti. Niðurstaða umboðsmanns var sú að hann taldi að þær heimildir sem ráðherra eru veittar til ákvörðunar um álagningu tolla samkvæmt ákvæðum tollalaga og búvörulaga samræmdust ekki ákvæðum stjórnarskrárinnar. Í kjölfar þessa hefur nú verið lagt fyrir Alþingi frumvarp til breytinga á umræddri löggjöf til að bregðast við álitinu. Samkvæmt efni frumvarpsins og athugasemda við það má ráða að íslenska ríkið fallist á ábendingar og niðurstöðu umboðsmanns. Því hafa stjórnvöld fallist á þá niðurstöðu að framkvæmd úthlutunar á tollkvótum hafi gengið gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Í tilkynningunni kemur fram að í desember í fyrra hafi Innnes flutt inn kjúklingabringur frá Danmörku og var 149,44% verðtollur greiddur samkvæmt hinum úthlutaða tollkvóta. Á þessa sendingu hafi lagst tollur og önnur gjöld sem leiddu til þess að heildarkostnaður var mun hærri en verið hefði ef magntollafyrirkomulag það sem var við lýði við úthlutun tollkvóta á árunum 1995 til 2008 hefði verið notað. Að mati Innnes ehf. byggist málsókn fyrirtækisins á því að sú breyting sem ráðherra hafi gert við úthlutun tollkvóta árin 2009-2011, að í stað þess að leggja á verðtoll til grundvallar við álagningu tolls á nánar tilgreindar vörur í stað magntolls fái ekki staðist ákvæði 40. og 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Ennfremur hafi sú ákvörðun ráðherra að breyta fyrirkomulaginu ekki staðist grundvallarreglur stjórnskipunar- og stjórn-sýsluréttar. Loks fari umrætt breyting í bága við skuldbindingar Íslands vegna aðildar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni.

Íslenska ríkinu hefur nú verið veittur frestur fram til loka júní til að skila greinargerð og gögnum í málinu. Gera má ráð fyrir að aðalmeðferð í málinu verði í byrjun september