Fyrirtækið True Adventure Paragliding flýgur aðallega með erlenda ferðamenn á Suðurlandi. Hefur sumarið gengið „yndislega“ að mati Gísla Steinari Jóhannessyni framkvæmdarstjóra fyrirtækisins. Þau bjóða upp á kynningarflug fyrir fólk sem vill kynnast svifvængjaflugi og hefur reynslan verið góð síðan fyrirtækið var stofnað árið 2014.

„Við erum ennþá bara lítið fyrirtæki og erum ekki að flýta okkur að stækka um og of. Við byrjuðum formlega 2014, en höfum verið í þessu fyrr“ segir Gísli í samtali við Viðskiptablaðið. Þau fljúga mest frá Reynisfjalli í Vík - en fara alla leið að Kirkjubæjarklaustri, en það fer eftir veðri og vindum hvaðan er flogið. „Íslenska veðrið er ekki besti viðskiptafélaginn“ tekur Gísli fram.

Gísli skýtur því að þetta sé ekki hefðbundin afþreying og að þetta sé frábær vara að selja. Fólk hefur verið mjög ánægt með upplifunina að mati Gísla og bendir hann meðal annars á að: „Við höfum bara einu sinni fengið fjórar stjörnur á TripAdvisor - en annars höfum við bara fengið fimm stjörnur. Fólk er bara í algjörri alsælu. Það er eitt að fljúga, en það er annað að fljúga í meiriháttar landslagi.“

Vertíðarstemming í ferðaþjónustu

Aðspurður um helstu hindranirnar þá tekur hann fram að það vanti húsnæði í Vík, ekki bara fyrir þá heldur almennt fyrir ferðaþjónustuna þar. „ Þetta lítur út eins og verktíðarstemming. Maður sér gott fólk koma og fara aftur, því það festir ekki rótum. Þetta er bara eins og verbúð. Fólk endist ekki lengi. Við höfum séð eftir öðru góðu fólki tengdu ferðaþjónustunni hjá öðrum. Við erum enn svo lítið fyrirtæki að við höfum ekki fundið jafn mikið fyrir því enn.“

Gísli telur líka að regluverkið geti líka flækt fyrir litlum fyrirtækjum eins og True Adventure. „Sem dæmi, það er jafn mikið mál fyrir tveggja manna fyrirtæki að vera með hópferðarleyfi og SBA eða Gray Line þurfa og að uppfylla sömu kröfur“ telur Gísli að það sé þó mikilvægt að huga að því að uppfylla allar kröfur varðandi öryggi — en að það væri í hag minni fyrirtækja ef hægt væri að einfalda regluverkið. „ Það er margt jákvætt í gangi, en ferlið mætti að vera einfaldlega. Ef það væri hægt án þess að slaka á kröfum, þá væri það mjög gott.“

Styrkur frá alþjóðlegum ævintýraferðamennskusamtökum

Fyrirtækið hlaut nýverið styrk frá Adventure Travel Association og fara því forsvarsmenn fyrirtækisins út til Alaska til að taka á móti honum. Hægt væri að ímynda sér að það sé mikilvægt fyrir ný, minni fyrirtæki.

Fyrirtækið hefur einnig tekið til notkunar stól, sérhannaðan fyrir fólk í hjólastól og hefur flogið fimm manns sem hefðu ekki annars geta farið.

Að lokum segir Gísli: „Við stígum hægt til jarðar og pössum okkur að fljúga ekki of hátt. Sígandi lukka er best.“

Paragliding í Vík
Paragliding í Vík
© Aðsend mynd (AÐSEND)