Fyrirtækið Þoran Distillery sem framleiðir íslenskt viskí hlaut fyrstu verðlaun í nýsköpunarkeppni Matís og Landsbankans fyrir viðskiptahugmyndir í matvæla- og líftækniiðnaði sem byggir á íslensku hráefni og hugviti. Fyrirtækið hlaut eina milljón króna í verðlaun frá bankanum. Forsvarsmenn fyrirtækisins fá jafnframt tæknilega ráðgjöf og aðstöðu til að vinna áfram að hugmyndinni hjá Matís.

VB sjónvarp ræddi við forsvarsmenn Þoran Distillery þegar fyrirtækið tók þátt í Startup Reykjavík í ágúst.

Fram kemur í tilkynningu að aðrar hugmyndir sem þóttu skara fram úr voru GeoSilica - kísilsvifvökvi sem fæðubótarefni, Íslandus - drykkja- og ísframleiðsla úr mysu og Bygg og þarapasta - þróun og framleiðsla á hollu pasta.

Nýsköpunarkeppnin bar yfirskriftina „Þetta er eitthvað annað" og vísar heitið til umræðu um nýjungar í atvinnulífi sem oft lýkur með því að sagt er að „gera eigi eitthvað annað", eða til óskilgreindra úrræða sem margir tala um en hafa ekki nafn yfir. Í þessari samkeppni skapast einmitt tækifæri til að gera „eitthvað annað".