Íslendingar versla manna mest skattfrjálsan varning í Danmörku. Þeir eru ábyrgir fyrir 24,6% allrar skattfrjálsrar verslunar í Danmörku. Henrik Thomsen, yfirmaður Global Refund í Danmörku, fyrirtækis sem sér um endurgreiðslu virðisaukaskatts af varningi sem keyptur er í Danmörku og fluttur úr landi, segir í samtali við Viðskiptablaðið í dag að Íslendingar séu af þessari ástæðu afar mikilvægir danskri smásöluverslun og vel séðir af dönskum verslunareigendum.


25% virðisaukaskattur er einungis endurgreiddur til viðskiptavina sem búa utan landa Evrópusambandsins, svo sem Íslendinga, Bandaríkjamanna og Asíumanna. Verslun Íslendinga er sérlega blómleg í gamla borgarhlutanum í Kaupmannahöfn og hafa verslanaeigendur þar greint frá því að Íslendingar fljúgi gagngert til Kaupmannahafnar til þess að kaupa skattfrjálsan fatnað, hönnunarhluti og heimilistæki.


Í frétt danska ríkissjónvarpsins um málið fyrir skemmstu sagði að hlutur Íslendinga í versluninni komi verulega á óvart þegar litið er til þess að íbúafjöldinn á landinu er svipaður og í jósku borginni Árrósum. Verslunargleði Íslendinganna komi þó rekstraraðilum í miðbæ Kaupmannahafnar síst á óvart. Þeir séu vanir því að sjá Íslendinga með seðlaveskin á lofti.


"Það koma fjölmargir Íslendingar til okkar. Vissulega er þetta ekki fjölmenn þjóð en það er eftirtektarvert hve miklu þeir eyða," segir John Hansen, verslunarstjóri hjá stórversluninni Illum. Í næsta nágrenni er Illums Bolighus sem selur danska hönnunarmuni af hæstu gæðum. "Við höfum orðið vör við mikil innkaup Íslendinga. Þeir vilja aðeins það besta í danskri hönnun inn á heimili sín," segir Henrik Ypkendanz, framkvæmdastjóri Illums Bolighus.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag