Sendinefnd frá Hjaltlandi hefur nýlokið við að skoða aðbúnað og starfsemi fiskmjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar í Helguvík og í Neskaupstað.

Markmiðið með Íslandsferðinni var að ganga úr skugga um að fiskmjölsverksmiðjur væru ekki illa lyktandi mengunarvaldar eins og haldið hefur verið fram í umræðunni um starfsleyfi fyrir verksmiðju sem Síldarvinnslan hyggst reisa á Hjaltlandi.

Niðurstaða nefndarinnar er sú að engin lykt eða óþefur hefði borist frá verksmiðjunum tveimur. Engir fuglar hefðu sótt í verksmiðjuumhverfið og enginn reykur hefði borist frá þeim. Í raun hefði tæpast verið hægt að sjá hvort bræðsla væri yfirleitt í gangi, þótt sú væri raunin.

Í umræðum um áform Síldarvinnslunnar á Hjaltlandi hefur því verið haldið fram að verksmiðjan þar myndi valda mengun og óþef og hafa skaðleg áhrif á umhverfið auk þess sem fuglar myndu sækja í úrgang frá verksmiðjunni.

Ákveðið var að fara í skoðunarferðina til Íslands eftir að athugasemdir voru gerðar við ónógar upplýsingar um áhrif verksmiðjunnar á umhverfismat og sömuleiðis hafði verið gagnrýnt á borgarafundi að ekki hefði farið fram skoðun á verksmiðjum líkum þeim sem til stæði að reisa. Til ferðarinnar völdust fulltrúar frá Hjaltlandsráðinu, undir forystu Jim Dickson, en einnig var fulltrúi skipulagsstjórnar með í för sem og ráðgjafi í umhverfismálum frá Natural Capital í Edinborg. Greint er frá þessu í The Shetland News.

Heimild: www.skip.is