Útblástur af koltvísýringi (CO2) í flugi íslenskra flugvéla í Evrópu dróst saman um helming í fyrra miðað við árið 2005, en það ár samsvaraði útblásturinn um 14 álverum með 180 þúsund álframleiðslu.

Gunnlaugur Stefánsson, formaður stýrihóps um losunarheimildir á koltvísýringi í flugi, segir ESB ætla að draga úr vexti flugstarfsemi í álfunni og hvetja til vistvænnar framþróunar með því að fella flugið inn í tilskipun um viðskiptakerfi með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda.

„Því er spáð að flugumferð muni tvöfaldast á milli áranna 2005-2020. Með því að taka flugið til og frá öllum EES flugvöllum inn í kvótakerfið sparast árið 2020 samtals 182 milljón tonn af CO2, sem er 46% minnkun miðað við að ekkert hafi verið gert,” sagði Gunnlaugur.

Hann kvað áætlað að flugfloti heimsins muni losa helmingi minna af gróðurhúsalofttegundum en hann gerir í dag.

Sérstaða eyþjóða virt að vettugi Gunnlaugur sagði sérstöðu Íslands ótvíræða í þessum málum, enda aðeins tvær samgönguleiðir í boði til og frá landinu, en ekki sé þó gert ráð fyrir í undirbúningi málsins af hálfu ESB að koma til móts við sérstakar ástæður, jafnvel þó þær gætu raskað samkeppnisumhverfi í flugrekstri á EES-svæðinu.

Þó sé gert ráð fyrir endurskoðunarákvæði gagnvart fjarlægum jaðarsvæðum og eyjum eftir að reynsla er komin á kerfið.

Allt flug innan EES og til og frá svæðinu fellur undir tilskipunina, fyrir utan opinbert flug, hernaðarflug, leitar- og björgunarflug, kennsluflug, flug þjóðhöfðingja frá ríkjum utan EES o.fl. Einka- og viðskiptaflug er ekki undanþegið.

Tilgangur kerfisins er m.a. að breyta ferðavenjum fólks og gert sé ráð fyrir að mjög dragi úr stuttu flugi og ferðir færist í auknum mæli yfir á járnbrautalestir.