Líftæknifyrirtækið Sif Cosmetics efndi til viðamikillar kynningar á húðvörum undir merkjum Bioeffect nýverið í Hong Kong. Björn Örvar, framkvæmdastjóri vöruþróunar hjá Sif Cosmetics, sá um kynninguna.

Fram kemur í tilkynningu frá fyrirtækinu að um fimmtíu blaðamenn og bloggarar hafi fylgst með kynningunni.  Kynningin kemur í framhaldi af samningi Sif Cosmetics við dreifiaðila í Hong Kong um sölu á húðvörunum. Þá hefur stórverslunin Harvey Nichols hafið sölu á þeim. Við markaðssetninguna er áhersla lögð á íslenskan uppruna varanna. Vörurnar eru nú seldar í yfir 20 löndum.

Góður rómur var gerður að kynningu Björns sem í kjölfarið fór í fjölda viðtala við þarlenda fjölmiðla, að því er segir í tilkynningu Sif Cosmetics.