*

laugardagur, 12. júní 2021
Innlent 25. maí 2018 14:32

Íslenskar konur eignast 1,71 barn

Frjósemi hefur aldrei verið lægri í Íslandssögunni. Langmestar líkur á því í Evrópu að íslensk börn fæðist utan hjónabands.

Ritstjórn
Að meðaltali eignast íslenskar konur nú einungis 1,71 börn á ævinni.
Haraldur Guðjónsson

Aldrei áður í sögu Íslands hefur verið jafnlítil frjósemi hér á landi eins og var á síðasta ári en hún er nú komin niður í 1,71 barn á konu. Miðast sú tala við meðalfjölda barna sem konur hér á landi eignast yfir ævina.

Jafnframt heldur meðalaldur mæðra þegar þær eignast sitt fyrsta barn að hækka og var það komið í 27,8 ár árið 2017. Loks er algengast að barn fæðist utan hjónabands á Íslandi af allri Evrópu, en einungis um 30% íslenskra barna fæðist innan hjónabands.

Þrátt fyrir þetta fæddust fleiri börn á Íslandi, eða 4.071 á síðasta árin en árið 2016 þegar þau voru 4.034. Alls fæddust 2.112 drengir og 1.959 stúlkur árið 2017, en það jafngildir 1.078 drengjum á móti hverjum 1.000 stúlkum.

Mælingar allt frá árinu 1853

Frjósemi er mæld út frá fjölda lifandi barna á ævi hverrar konu og er miðað við að sú tala þurfi að ná 2,1 barni á konu að meðaltali til að viðhalda mannfjöldanum að því er Hagstofan greinir frá.

Hefur sá mælikvarði nú ekki verið lægri í Íslandssögunni síðan mælingar hófust árið 1853. Árið 2016 var næst lægsta frjósemin eða 1,75, en undanfarinn áratug hefur frjósemin á íslandi verið rétt um tvö börn á ævi hverrar konu.

Lengi verið einna hæst í Evrópu hér á landi

Hingað til hefur frjósemi á Íslandi verið með því mesta sem þekkist í Evrópu á síðustu árum, en 2016 var hún einungis undir tveimur landa Evrópska efnahagssvæðisins. Meðaltalið í 28 löndum Evrópusambandsins var 1,6 barn á ævi hverrar konu árið 2016, þar af mest í Frakklandi eða 1,92.

Þess utan hefur fæðingartíðnin verið lægst í álfunni í suðlægum löndum álfunnar nú í mörg ár, eða 1,34 á Spáni og 1,36 í Portúgal árið 2016.

Meðalaldur fyrstu mæðra hækkað hratt frá 1980

Frá því í byrjun 7. áratugarains og fram yfir árið 1980 var meðalaldurinn undir 22 árum, en eftir miðjan 9. áratuginn hefur hann hækkað hratt og var hann nú 27,8 ár á síðasta ári.

Af þeim börnum sem fæddust hér á landi á síðasta ári voru einungis 28,8% af foreldrum þeirra í hjónabandi. Hins vegar fæddust rúmlega 56% íslenskra barna innan óvígðrar sambúðar, en 14,8% utan hvort tveggja utan sambúðar eða hjónabands.

Meðaltalið í ESB er að 60% barna fæðist innan hjónabands, en langt er í næsta land þar sem jafnfáir fæðast innan hjónabands. Frakkland kemur næst með 59,7% þar sem foreldrarnir eru giftir, og svo Slóvenía og Búlgaría þar sem hlutfallið er 58,6% í báðum tilvikum.

Á hinum endanum er svo Grikkland með 9,4% barna sem fæðist utan hjónabands af löndum ESB en í Tyrklandi er hlutfallið ekki nema 2,9%.

Stikkorð: ESB Hagstofa Íslands frjósemi