Verið er að undirbúa áskriftarvodþjónustu hjá nokkrum íslenskum fyrirtækjum í anda bandarísku Netflix-þjónustunnar sem margir Íslendingar notfæra sér. Búast má við því að slík þjónusta líti dagsins ljós á næsta ári, en líklega þarf að breyta virðisaukaskattslögunum áður en af því getur orðið. Eins verður að ganga frá réttindamálum, en rétturinn til að sýna efni í netleigu, eins og hægt er að gera í vod-þjónustum Símans og Vodafone, þýðir ekki að hægt sé að sýna það í áskriftar-voddi.

Fyrir um ári síðan sagði forstjóri Senu, Björn Sigurðsson, að fyrirtækið væri að vinna að uppsetningu á áskriftar-vod þjónustu í takt við það sem Netflix býður upp á í Bandaríkjunum. Jón Diðrik Jónsson, stjórnarformaður Senu, segir að þar hafi orðið ákveðin áherslubreyting hjá fyrirtækinu. „Vodþjónusta Skjásins og Vodafone hefur sótt í sig veðrið og við vitum að aðrir eru að undirbúa áskriftar-vod þjónustu. Eins og með tónlistina vildum við ekki vera í samkeppni við viðskiptavini okkar. Það sem hefur staðið í veginum fyrir uppsetningu á áskriftar-voddi eru réttindamálin, en þau eru töluvert flókin. við höfum verið að viða að okkur réttindum og erum komnir með nokkuð góða pakka, einkum hvað varðar barnaefni. Það er þó nokkuð í land með að við séum með nógu stóra pakka fyrir almenna notendur. Ég geri ráð fyrir því að íslenskar „Netflix“ þjónustur verði komnar í loftið á næsta ári, pakkfullar af efni.“

Ari Edwald, forstjóri 365 miðla, segir fyrirtækið vera að skoða ýmsa möguleika, en vildi ekki svara því hvort áskriftar-vod þjónusta í anda Netflix væri einn þeirra.